Erlent

Eldri borgarar í París fá frítt í lestir og strætó

Atli Ísleifsson skrifar
Tillagan mun hafa áhrif á um 200 þúsund íbúa borgarinnar.
Tillagan mun hafa áhrif á um 200 þúsund íbúa borgarinnar. Vísir/AFP
Eldri borgarar í París munu fá að ferðast frítt í almenningssamgangnakerfi frönsku höfuðborgarinnar frá og með júní í sumar.

Allir þeir sem eru 65 ára eða eldri og með tekjur undir 2.200 evrum í mánuði, um 276 þúsund krónum, munu ekki þurfa að greiða til að nýta sér þjónustuna.

Sósíalistinn Anne Hidalgo, sem hefur gegnt borgarstjóraembættinu í París frá árinu 2014, kveðst vona að breytingin verði til að fleiri skilji bílinn eftir heima.

Hidalgo sagði þegar hún kynnti tillöguna að hún vilji sjá fleiri nýta sér almenningssamgöngur auk þess að hún vonist til að hún skili sér í aukinni hreyfingu eldri borgara.

Parísarbúar eldri en 65 ára hafa lengi getað nýtt sér afslátt þegar þeir nota þjónustu lesta eða strætóa en með breytingunni verður það að fullu ókeypis.

Tillagan mun hafa áhrif á um 200 þúsund íbúa borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×