Innfluttar þvottavélar og vörur sem tengjast sólarorku munu nú bera háa verndartolla í Bandaríkjunum samkvæmt ákvörðun Donalds Trump forseta. Hún er rökstudd með því að ódýrar innfluttar vörur skaði innlenda framleiðslu.
Þrjátíu prósent tollur verður lagður á sólarsellur en hlutfallið mun lækka niður í fimmtán prósent á fjórum árum, að því er segir í frétt New York Times. Fyrstu 2,5 gígavöttin af innfluttum sólarsellum verða undanþegin tollinum.
Fyrstu 1,2 milljónir þvottavéla sem fluttar verða inn munu bera 20% toll. Allar þvottavélar eftir það munu bera 50% toll.
Los Angeles Times segir að ákvörðun Trump setji sólarorkumarkaðinn í Bandaríkjunum, ekki síst í Kaliforníu í uppnám en mikill uppgangur hefur verið í greininni síðustu árin meða fallandi verði á sólarsellum. Verndartollarnir muni hækka verð á sólarorku í Bandaríkjunum verulega.
Fyrirtæki í sólarorku hafa varað við því að verndartollar á borð við þessa muni hægja á dreifingu endurnýjanlegrar orku og eyða þúsundum starfa.
Trump leggur háa verndartolla á innfluttar vörur
