Fram kom í máli Masamichi Kudo, stjórnarformanns og forstjóra Subaru Europe þegar niðurstaða prófananna lá fyrir að þennan árangur Subaru megi fyrst og fremst þakka framúrskarandi hönnum og háþróuðum öryggisbúnaði sem sé staðalbúnaður í öllum bílum Subaru og ætlað að veita farþegum og gangandi vegfarendum mesta mögulega öryggi. Til að uppfylla þau markmið Subaru skiptir aðstoðarkerfið EyeSight lykilhlutverki, en EyeSight þykir í dag það besta á markaðnum.
Nýr Subaru XV, sem nýverið var kynntur hjá BL, er á nýjum alhliða undirvagni sem notaður er í öllum nýjustu bílgerðum Subaru. Undirvagninn veitir bæði meira öryggi en fráfarandi undirvagnar auk betri og þægilegri aksturseiginleika. Nýr XV er m.a. búinn 7 öryggispúðum, þar á meðal loftpúða til að verja hné ökumanns, og nýjum og betri öryggisbeltum sem veita bæði meiri vernd í bílveltu og draga úr líkum á innvortis meiðslum.
BL býður nýjan XV í tveimur útfærslum sem báðar eru búnar 114 hestafla 1,6 lítra 16 ventla DOHC bensínvél. Grunnverð bílsins er 4.990.00 en hægt er að kynna sér nánar búnað bílsins á heimasíðu BL, þar á meðal upplýsingar um sjálfvirka hraðastillinn, sveigju- og akgreinavarann, akgreinastýringuna og fleira sem öryggiskerfið EyeSight býður upp á, auk upplýsinga um margháttaðan aukabúnað sem hægt er að fá með XV.
