Erlent

Ætla í „öfluga“ yfir­töku á Gasaströndinni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael.
Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael. EPA

Varnarmálaráðherra Ísrael tilkynnti að ísraelski herinn stefnir á „öfluga“ yfirtöku allrar Gasastrandarinnar. Herinn hefur einnig fyrirskipað brottflutning íbúa á svæðinu.

Ísraelski herinn hefur fyrirskipað íbúum í nágrenni Khan Younis borgarinnar að yfirgefa heimili sín. Herinn er að undirbúa árásir þar sem svar við skotflaugum sendar frá Gasa sem Hamas-samtökin hafa tekið ábyrgð á.

Ísraelar stöðvuðu þrjú flugskeyti og var enginn særður eftir árásina.

Vopnahlé var í gildi milli Hamas og Ísrael í byrjun árs og stóð í sex vikur. Samningaviðræður um annan fasa vopnahlésins hafa ekki gengið og hófu Ísraelar aftur sókn sína þann 18. mars síðastliðinn. Síðan þá hefur herinn lagt undir sig stór svæði og hrakið þúsundir íbúa á brott.

Embættismenn í Ísrael segja áframhaldandi árásir vera til að setja þrýsting á Hamas um að frelsa 59 gísla sem eru í þeirra haldi en einungis 24 eru taldir vera á lífi.

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísrael, varaði við að framundan væru auknar aðgerðir hersins og ítrekaði að fólk ætti að flýja til að „rýma bardagasvæðin“. Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Klukkan eitt á staðartíma í dag greindi heilbrigðisráðuneyti Hamas frá því að 21 hefðu látist á síðasta sólarhring og 64 verið særðir. Meira en fimmtíu þúsund manns hafa þá verið drepin á Gasa síðan stríðið hófst þann 7. október 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×