Erlent

Samkomulag um að opna alríkisstjórnina aftur

Kjartan Kjartansson skrifar
Flóknar samningaviðræður hafa staðið yfir í Bandaríkjaþingi frá því að frestur til að samþykkja áframhaldandi fjárheimildir alríkisstofnana rann út á miðnætti á föstudag.
Flóknar samningaviðræður hafa staðið yfir í Bandaríkjaþingi frá því að frestur til að samþykkja áframhaldandi fjárheimildir alríkisstofnana rann út á miðnætti á föstudag. Vísir/AFP
Repúblikanar og demókratar í öldungadeild Bandaríkjaþings hafa náð saman um samkomulag um bráðabirgðafjárlög svo hægt verði að opna alríkisstjórnina aftur. Búist er við að greidd verði atkvæði um frumvarp í anda samkomulagsins í báðum deildum í dag. Washington Post greinir frá þessu.

Fjöldi alríkisstofnana þurfti að leggja niður starfsemi eftir að frestur til að samþykkja áframhaldandi framlög til þeirra rann út á miðnætti á föstudag. Repúblikanar, sem ráða báðum deildum þingsins, þurfa engu að síður að reiða sig á að níu þingmenn demókrata greiði atkvæði með þeim í öldungadeildinni til að samþykkja frumvarp þess efnis.

Á það vildu demókratar hins vegar ekki fallast nema að tryggt yrði að innflytjendur sem voru fluttir ólöglega til Bandaríkjanna sem börn fengju að dvelja áfram í landinu. Donald Trump forseti batt enda á svonefnda DACA-áætlun sem hefur varið þá fyrir brottvísun í fyrra.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, segir nú að flokkur hans muni greiða atkvæði með því að opna alríkisstjórnina aftur tímabundið til 8. febrúar. Það gefi flokkunum ráðrúm til að ná saman um málamiðlun um skjólstæðinga DACA.

Búist er við að öldungadeildin samþykki frumvarp þess efnis fljótlega. Þingmönnum fulltrúadeildarinnar hefur verið sagt að vera tilbúnir fyrir atkvæðagreiðslu síðar í dag.




Tengdar fréttir

Enn allt í hnút vestanhafs

Hundruð þúsunda opinberra starfsmanna munu ekki geta mætt til vinnu í Bandaríkjunum í dag.

Kenna Demókrötum um lokun alríkisstjórnarinnar

Bandarískum alríkisstofnunum hefur verið lokað um óákveðinn tíma þar sem ekki náðist að semja um greiðsluheimild til áframhaldandi starfsemi í öldungadeild Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×