Erlent

Segja forsetakosningarnar í Venesúela ekki lögmætar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Talsmenn sex landa neita að viðurkenna niðurstöður kosninganna í Venesúela. Niculas Maduro hafi sýnt af sér alræðistilburði.
Talsmenn sex landa neita að viðurkenna niðurstöður kosninganna í Venesúela. Niculas Maduro hafi sýnt af sér alræðistilburði. vísir/afp
Í sameiginlegri yfirlýsingu sex landa; Argentínu, Kanada, Ástralíu, Mexíkó, Síle og Bandaríkjanna, segir að löndin viðurkenni ekki niðurstöður forsetakosninganna í Venesúela í gær. Niculas Maduro var í gær kjörinn forseti Venesúela en hann hlaut 67,7% atkvæða á móti andstæðingi sínum Henri Falcon sem hlaut 21,1% atkvæða.

Fjölmargir hafa lýst yfir óánægju sinni með framkvæmd kosninganna og einræðistilburði Maduros, sem tók við embætti forseta Venesúela árið 2013 af Hugo Chaves. Meginandstæðingar Maduros voru ýmist fangelsaðir eða þeim bannað að bjóða sig fram. Af þessum sökum vildi stjórnarandstaðan að kosningarnar yrðu sniðgengnar þannig að grafið yrði undan valdi Maduros.

Stjórnarandstaðan reyndist ekki vera samstíga því að einn úr hópi stjórnarandstöðunnar Henri Falcon bauð sig fram og var eini raunverulegi andstæðingur Maduro. Eftir að niðurstöðurnar lágu fyrir voru stjórnarandstöðuliðar og andstæðingar Maduros verulega óánægð með málalyktir.



Blaðasali í Venesúela við hliðina á dagblöðums sem sýna úrslit kosninganna. Ekki eru allir sáttir með framkvæmd kosninganna og segja kosningarnar vera ólögmætar.vísir/afp
Stigvaxandi þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu

Það er ekki aðeins innan Venesúela sem framkvæmd kosninganna er gagnrýnd. Ríkin sex, sem fyrr segir, hafa stigið fram og neitað að viðurkenna úrslit kosninganna. Jorge Faurie, Utanríkisráðherra Argentínu, sagði að í ljósi þess að Maduro hafi útilokað andstæðinga sína frá þátttöku í því sem hefði átt að vera lýðræðislegar kosningar væri ekki hægt að viðurkenna úrslit þeirra. Framkvæmdin hafi ekki verið með lögmætum hætti. Þetta hefur Reuters eftir Faurie.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fordæmdi kosningarnar og skrifaði stöðuuppfærslu á Twitter. „Kosningarnar í Venesúela voru sviðsettar. Bandaríkin tekur afstöðu gegn einræði og með fólkinu í Venesúela sem kallar eftir frjálsum og sanngjörnum kosningum“

Í minniháttar mótmælum komu um þrjátíu andstæðingar Maduros sér fyrir á hraðbraut og hrópuðu „Þetta voru skrípalæti – ekki kosningar“.


Tengdar fréttir

Maduro endurkjörinn forseti Venesúela

Fyrrum rútubílstjórinn og sitjandi forseti, Nicolas Maduro, hlaut í gær meirihluta atkvæða í forsetakosningum sem haldnar voru í Venesúela. Ekki eru allir sáttir með framkvæmd og niðurstöður kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×