Skoðun

Um hvað snúast kjarasamningar á komandi vetri?

Guðríður Arnardóttir skrifar
Gylfi Zoega vann skýrslu fyrir forsætisráðherra um þjóðhagslegt umhverfi kjarasamninga á komandi vetri. Gylfi bendir á að launakjör almennings í landinu hafi batnað á undanförnum árum. Hagvísar sýna að ráðstöfunartekjur þjóðarinnar hafa hækkað og kaupmáttur aukist síðustu ár.

Nú er kaupmáttur reyndar nálægt því sem hann var á hápunkti uppsveiflunnar fyrir hrun. Launahækkanir almennings árið 2015 voru allnokkrar enda óumdeilt að hækkun var löngu tímabærar í kjölfar þeirra þrenginga sem almenningur mátti þola á árunum eftir hrun. Hækkanir urðu ekki til að auka verðbólgu þar sem útflutningsgreinarnar báru þungann með sterku gengi krónunnar, auk fjölgunar erlendra ferðamanna og fleiri jákvæðra hagrænna þátta.

Gylfi bendir á að í aðdraganda kjarasamninga komandi vetrar séu aðstæður aðrar. Samkeppnisstaða útflutningsgreina hefur veikst m.a. vegna innlendra launahækkana. Styrking krónunnar hefur skilað sér í hærra verðlagi sem hefur svo aftur neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í landinu og þar með gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Hver þáttur hefur áhrif á annan og lítið getur þurft til að raska því jafnvægi sem ríkir á meðal hinna ýmsu hagstærða.

En það verður ekki fram hjá því litið að launahækkanir æðstu stjórnenda á almennum markaði og ekki síður innan opinbera geirans hafa verið langt umfram það sem almenningi í landinu hefur boðist. Við í verkalýðshreyfingunni höfum haldið kröfum okkar innan skynsamlegs ramma í þeirri von að ávinningur af launahækkunum fuðri ekki upp í logum verðbólgunnar. Stundum örlar þó á óbragði í munni.

Kjarasamningar komandi vetrar verða glórulausir ef stjórnvöld leggja verkalýðshreyfingunni ekki lið með afgerandi hætti. Stjórnvöld þurfa að koma til móts við lægst launuðu hópana í landinu með breytingum á skattkerfinu. Þar vegur hækkun persónuafsláttar þyngst og mun nýtast þeim mest sem lægst hafa launin.

Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða á húsnæðismarkaði með það markmið að lækka húsnæðisverð og/eða byggja upp traustan langtíma leigumarkað.

En það er fleira sem skiptir máli. Í komandi kjarasamningum þurfum við að takast á við álag, streitu og kulnun í starfi með því að semja um sveigjanlegri vinnutíma og styttri vinnuviku. Og við eigum að halda áfram að jafna laun á milli almenna og opinbera markaðarins og finna sátt um hvernig við metum menntun og ábyrgð til launa. Stjórnvöld og verkalýðsforystan verða að taka höndum saman og leysa þetta verkefni í sameiningu, af skynsemi, yfirvegun og með jöfnuð í samfélaginu að leiðarljósi. Það er hætt við því, ef áfram er gengið í átt til vaxandi misskiptingar þar sem mulið er undir forréttindastétt í þessu landi, að við launþegar missum kúlið og þá tapa allir.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×