Skýstrókarnir feyktu þökum af húsum á bænum Norðurhjáleigu og stórum jeppa með kerru út í skurð þegar þeir fóru yfir Álftaver við Kúðafljót á föstudag. Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni, segir við Vísi að tjónið af völdum strókanna sé alfarið bundið við Norðurhjáleigu.
Hún fór ásamt félögum sínum þangað í dag, kannaði merki um skýstrókana og ræddi við fólk sem varð vitni að þeim.
„Það er alveg augljóst að þetta var mjög kraftmikið veður og líklega þrír strókar sem gengu yfir í röð eiginlega. Einn þeirra, miðjustrókurinn, hefur líklega verið sá allra öflugasti. Hann bar brak fimm hundruð og jafnvel þúsund metra frá bænum,“ segir Elín Björk.
Hefðu ekki haft ímyndunarafl í að vara við skýstrókum
Veðurfyrirbrigði af þessu tagi eru sjaldgæf á Íslandi. Skýstrókar myndast þegar loft verður afar óstöðugt. Þá þarf loft að verða mjög hlýtt við yfirborð en kalt í háloftunum auk þess sem sérstakt vindafar þarf til. Hafgola getur einnig komið í veg fyrir að strókar myndist og þroskist.Elín Björk segir að hagstæðar aðstæður fyrir stróka skapist sjaldan hér á landi þó að þekkt sé að litlir hvirflar myndist.
Markmið vettvangsferðarinnar í dag var bæði að safna heimildum um skýstrókana en einnig gögnum fyrir rannsókn sem beinist meðal annars að því að spá fyrir um aðstæður fyrir skýstróka. Elín Björk segir að nú taki við greining og samanburður á gögnum. Hún telur líklegt að Veðurstofan muni leita ráða hjá erlendum sérfræðingum sem þekki betur til skýstróka.

Ekki er þó líklegt að Íslendingar þurfi að hafa miklar áhyggjur af hættu af öflugum skýstrókum. Elín Björk telur að það hafi verið sérstakar og óvenjulegar aðstæður sem leiddu til þess að þeir gátu myndast nú.
„Ef við hefðum varað við einhverju þá hefðum við líklega frekar varað við þrumuveðri og hagléli. Ég held að við hefðum ekki haft ímyndunarafl í að vara við skýstrókum,“ segir hún.