Innlent

Uppátækjasamur strætisvagnabílstjóri

Samúel Karl Ólason skrifar
Næstum allir farþegar sem fóru með leið ellefu hjá Strætó á páskadag hlupu apríl. Bílstjórinn er þekktur fyrir að vera mjög uppátækjasamur og er þegar farinn að undirbúa tiltæki fyrir HM í sumar. Vagnstjórinn, Össur Pétur Valdimarsson, stöðvaði skyndilega vagninn við stoppistöð á Fríkirkjuvegi og bað alla um að fara út. Því næst bauð hann farþegum aftur um borð, það væri 1. apríl.

Þetta gerði hann allan daginn.

Sjá einnig: Strætóbílstjóri lét farþega hlaupa apríl



„Ég ætlaði að reyna að ná sem flestum,“ sagði Össur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Það voru örfáir sem að sluppu.“

Össur segir fólk hafa tekið afar vel í uppátækið. Einn farþegi hefði sagt honum að hún hefði ekki lent í svona gabbi í mörg ár og hún hefði verið mjög ánægð.

Hann heldur reglulega upp á fótboltaleiki hjá kvenna og karlalandsliðunum og skreytti vagninn vel fyrir landsleik í haust. Nú þegar er hann byrjaður að undirbúa uppátæki fyrir HM í sumar.

„Ég er Íslendingur og vil sýna okkar mönnum að við erum að senda þeim kraftinn út og þeim gangi eins vel og hægt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×