Bíó og sjónvarp

Svarar fyrir leikaraval í eitt leyndardómsfyllsta hlutverk galdraheimsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Claudia Kim í hlutverki sínu í kvikmyndinni Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald.
Claudia Kim í hlutverki sínu í kvikmyndinni Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald. Skjáskot/Youtube
Rithöfundurinn JK Rowling, höfundur bókanna um galdrastrákinn Harry Potter, hefur svarað fyrir leikaraval í leyndardómsfullt hlutverk nýrrar kvikmyndar í Fantastic Beasts-myndaflokknum. Netverjar hafa gagnrýnt leikaravalið á grundvelli þjóðernis leikkonunnar.

Rétt er að geta þess að allt sem um ræðir í fréttinni hefur þegar komið fram í nýútgefinni stiklu fyrir kvikmyndina. Þeir sem ekki vilja vita meira um umrædda persónu í myndinni eru hér með varaðir við áframhaldandi lestri. Stikluna má sjá hér að neðan.

Kvikmyndin Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald verður frumsýnd í nóvember næstkomandi. Síðasta stikla myndarinnar var gefin út í vikunni en í henni var hulunni loksins svipt af hlutverki kóresku leikkonunnar Claudiu Kim. Hún hefur fylgt öðrum aðalleikurum í myndinni á kynningarferðalagi en hafði, þangað til nú, ekki mátt greina frá nafni persónu sinnar.

Sjá einnig: Ingvar agndofa í nýrri stiklu Fantastic Beasts

Í stiklunni kemur þó í ljós að Kim fer með hlutverk snáksins Nagini, sem myrkrahöfðinginn Voldemort hafði ávallt sér við hlið og fól hluta af sál sinni í. Mun kvikmyndin þannig veita innsýn inn í persónuna, sem aðdáendur þekkja vel úr bókaflokknum um Harry Potter. Eftir að stiklan var frumsýnd fóru gagnrýnisraddir þó að hljóma úr ýmsum áttum. Líkt og áður var JK Rowling, sem er einn framleiðenda kvikmyndarinnar, gagnrýnd fyrir fábreytni í hópi persóna sem hún skrifar, þ.e. að þær séu að stærstum hluta hvítar á hörund. Þá þótti þónokkrum ámælisvert að eini leikari myndarinnar sem er af asískum ættum fari með hlutverk skriðdýrs, sem jafnframt er þræll aðalþorparans.

Rowling svaraði fyrir sig á Twitter og sagði þar að Nagini væri byggð á goðsagnaverum úr indónesískri goðafræði, Naga, sem taka á sig líki snáka. Þá ítrekaði hún að ráðning Kim í hlutverkið væri vel ígrunduð.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikaraval Fantastic Beasts-kvikmyndanna sætir gagnrýni. Bandaríski leikarinn Johnny Depp fer með hlutverk Grindelwald, erkióvins – og mögulegan elskhuga – Dumbledore, en hann hefur verið sakaður um heimilisofbeldi. Aðdáendum þótti valið á Depp ósmekklegt en Rowling hefur sagst ánægð með hann í hlutverkinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.