Innlent

Tveggja stafa hitatölur víða um land

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hið fínasta spákort fyrir daginn.
Hið fínasta spákort fyrir daginn. veðurstofa íslands
Það er fallegur og hlýr föstudagur framundan ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Það segir að það verði yfirleitt skýjað um sunnan- og vestanvert landið, og sums staðar smá rigning, en búast má við að hitinn verði á milli 9 og 14 stig.

Suðaustanáttinni fylgir þó dálítill vindur með suður-og vesturströndinni þar sem er spá 10 til 15 metrum á sekúndum og allt upp í 18 metra á sekúndu í vindstrengjum við fjöll.

Vindurinn verður hægari inn til landsins sem og norðan og austan til og þá er spáð léttskýjuðu veðri norðanlands með allt að 18 stiga hita.

Veðurhorfur í dag og næstu daga:

Suðaustlæg átt, víða 5-13 m/s, en 13-18 í vindstrengjum með suður- og vesturströndinni. Skýjað að mestu og úrkomulítið, en bjartviðri norðanlands. Fer að rigna sunnantil í kvöld.

Austlæg átt 8-15 á morgun, og dálítil rigning um vestanvert landið en samfelldari rigning á Suðausturlandi. Skýjað með köflum og þurrt að kalla norðaustantil. Lægir annað kvöld.

Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Á laugardag:

Suðaustan og austan 8-13 m/s, en hægari norðvestanlands. Rigning með köflum um sunnan- og vestanvert landið, en skýjað og úrkomulítið norðaustantil. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Á sunnudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt og rigning eða skúrir, en þurrt norðaustantil fram á kvöld. Hiti 8 til 14 stig.

Á mánudag:

Vestlæg eða breytileg átt 5-13 og rigning eða súld í flestum landshlutm. Hiti 7 til 12 stig.

Á þriðjudag:

Hæg vestlæg átt og víða dálítil væta, en yfirleitt þurrt inn til landsins. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×