Íslenski boltinn

Óskar Örn: Við unnum toppliðið, held ég

Einar Sigurvinsson skrifar
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson. vísir/bára
„Ég er hrikalega ánægður. Núna erum við bara komnir í alvöru pakka, þar sem við ætlum að vera,“ sagði markaskorarinn Óskar Örn Hauksson eftir 1-0 sigur KR á Stjörnunni í dag.

Þetta var í fyrsta skipti í sumar sem KR nær að vinna tvo leiki í röð og segir Óskar sigurinn í dag hafa vera gríðarlega mikilvægan.

„Við náum loksins tveimur leikjum í röð. Við unnum toppliðið, held ég, ég er reyndar ekkert búinn að vera að kíkja mikið á töfluna. Við erum búnir að vera að missa leiki hér og þar, sem er dýrt. Við erum búnir að vera nálægt þessu, en núna sýndum við að við viljum vera þarna og við ætlum að vera þarna.“

Eftir markið í dag hefur Óskari tekist að skora síðustu 15. tímabilum í röð í efstu deild. Hann tekur afrekinu af mikilli hófsemi, en var nokkuð ánægður með eigin frammistöðu.

„Hún var bara ágæt. Þeir lágu mikið á okkur, en þetta var bara allt í lagi leikur.“

Þetta var fyrsti leikurinn í sumar þar sem Stjarnan nær ekki að skora og var hann því að vonum ánægður með varnavinnu liðsins í dag.

„Þeir spila svona stórkallabolta, en þeir sköpuðu í rauninni engin færi. Varnarlega vorum við mjög flottir.“

Næsti leikur KR er gegn Grindavík og segir Óskar gríðarlega mikilvægt að halda sigurgöngunni áfram.

„Það skiptir bara öllu. Stemningin og allt þegar illa gengur er ekkert sérstök. Við viljum auðvitað vinna alla leiki og það er bara næsti leikur,“ sagði Óskar Örn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×