Fótbolti

Modric besti leikmaður HM í Rússlandi

Luka Modric og Kylian Mbappe með verðlaunin sín í dag
Luka Modric og Kylian Mbappe með verðlaunin sín í dag Vísir/Getty
Luka Modric fékk gullboltann á HM í Rússlandi, verðlaunin fyrir besta leikmann keppninnar. Kylian Mbappe var valinn besti ungi leikmaðurinn og Harry Kane varð markahrókur keppninnar.

Belginn Thibaut Courtois fékk gullhanskann, verðlaunin fyrir besta markvörð keppninnar.

Fyrir úrslitaleikinn í dag var Luka Modric talinn mjög líklegur til þess að hreppa gullboltann, hans helstu keppinautar voru taldir vera Kylian Mbappe og Ngolo Kante. Þrátt fyrir að hafa tapað úrslitaleiknum 4-2 var það Modric sem hneppti verðlauninn og er þetta annað heimsmeistaramótið í röð þar sem leikmaður úr tapliði úrslitaleiksins vinnur þessi verðlaun.

Mbappe var ekki valinn bestur allra, en hann var talinn bestur af ungu leikmönnum mótsins. Hann er fæddur árið 1998 og verður því tvítugur á árinu.

Harry Kane skoraði flest mörk allra og fékk því gullskóinn. Kane skoraði sex mörk í keppninni, tveimur mörkum fleiri en þeir sem komust honum næst. Antoine Griezmann og Mbappe hefðu getað náð honum í úrslitaleiknum í dag og þeir skoruðu sitt hvort markið en það dugði ekki til.

Hvorki Kane né Courtois voru viðstaddir úrslitaleikinn í dag og fengu því ekki verðlaunin formlega afhent.



 




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×