Innlent

Vissi af Bergþóru nokkrum vikum áður en hann lýsti sig vanhæfan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Vísir/Ernir
Bergþóra Þorkelsdóttir, nýr Vegamálastjóri, sótti um starfið þann 1. maí. Þá hafði frestur til að sækja um starfið verið framlengdur. Fimmtán manns höfðu sótt um starfið þegar umsóknarfresturinn rann út þann 23. apríl.

Í svari frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins segir að ákveðið hafi verið að framlengja frestinn til 1. maí þar sem fyrri frestur þótti „þótti hafa verið ákvarðaður of stuttur í upphafi“. Hæfisnefnd hafi á engum tímapunkti verið meðvituð um tengsl ráðherra við umsækjendur.

„Það sóttu fáir um og var framlengdur fresturinn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þann 1. maí sótti Bergþóra um starfið.

Sigurður Ingi segist hafa séð lista yfir umsækjendur áður en síðasti umsóknarfrestur rann út. Þá hafi hann séð nafn Bergþóru og fleiri sem hann kannaðist við. Það var svo eftir að Bergþóra var valin ein þeirra fjögurra hæfustu af hæfnisnefnd sem Sigurður Ingi mat að hann væri vanhæfur til að koma frekar að skipunarferlinu. Þau Bergþóra eru vinir en þau voru saman í dýralækninganámi í Kaupmannahöfn á sínum tíma.

Hann segist ekkert hafa skipt sér af störfum hæfnisnefndarinnar.

Lillja segist hafa lagt mikla áherslu á gegnsæi við skipunarferlið. Hún tók við ferlinu 13. júní og var Bergþóra skipuð vegamálastjóri um mánaðarmótin.Vísir/Stefán

Skipaði nefnd út af mikilvægi starfsins

Sigurður Ingi samþykkti auglýsingu fyrir embættið sem birtist í dagblöðum og á vef stjórnarráðsins þann 6. apríl. Var umsóknarfrestur rúmar tvær vikur eða til 23. apríl. Þá höfðu 15 sótt um en fresturinn var framlengdur til 1. maí. Sjö umsækjendur bættust við.

Í framhaldinu kom í ljós að gleymst hafði að auglýsa embættið í Lögbirtingablaðinu og var fresturinn því lengdur um tvær vikur frá þeirri auglýsingu, þann 4. maí. Var listi yfir umsækjendur birtur 22. maí og í framhaldinu fjórir boðaðir í viðtal hjá hæfnisnefnd mánaðarmótin maí/júní.

Sigurður Ingi skipaði hæfnisnefndina í byrjun apríl.

„Það er ekki lagaskylda en mér fannst það betra því þetta er svo stórt starf,“ segir Sigurður Ingi í samtali við Vísi.

„Svo fylgdist ég ekkert með þessu máli þangað til ég fæ þær upplýsingar frá hæfnisnefndinni að hún hafi lokið störfum, lokið viðtölum og afmarkað hópinn. Þá sé ég að ég þekki þar nokkurn nöfn,“ segir Sigurður Ingi. Eitt betur en önnur.

„Eitt með þeim hætti að ég taldi að ég væri vanhæfur,“ segir Sigurður Ingi og á við nafn nýskipaðs vegamálastjóra Bergþóru Þorkelsdóttur. Hann hafi því óskað eftir því við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og varaformann Framsóknarflokksins að taka við skipunarferlinu. Beiðnin barst 4. júní og var staðfest þann 13. júní.

Bergþóra Þorkelsdóttir er menntaður dýralæknir en hefur sinnt stjórnunarstöðum síðustu tuttugu ár.vísir/gva

Vissi ekki að Bergþóra væri einna líklegust

Sigurður Ingi vissi af því að Bergþóra væri meðal umsækjenda nokkrum vikum áður en hann sagði sig frá málinu.

„Ég vissi af því að hún hefði sótt um. Ég man ekki nákvæmlega hvenær. Enda þekkti ég fleiri nöfn. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig valnefndin myndi leggjast yfir þessa vinnu, og var ekki í neinum samskiptum við þau. En um leið og hún hafði lokið vinnu sinni í þessum viðtölum var mér ljóst að ég gæti ekki tekið þessa niðurstöðu.“

Hann hafi þó ekki verið upplýstur um það að hún væri ein fjögurra sem væru komin lengst í ferlinu, áður en viðtölin fóru fram.

„Það helgast sjálfsagt af því að þetta var síðasta vikan fyrir sveitarstjórnarkosningar og ég var hingað og þangað. Enda var málið þannig vaxið að eftir að auglýsingunni lauk og ég hafði lokið skipun í þessa valnefnd og reglur sem hún færi eftir þá á ráðherra enga aðkomu að málinu fyrr en valnefndin hyggst láta vita hvernig hún eigi að ljúka vinnu sinni.“

Ráðherra er skýr varðandi aðkomu sína.

„Ég átti enga aðkomu að þessu en ekki samskipti við neinn.“

Lilja Alfreðsdóttir, settur ráðherra í málinu, segist ekkert hafa rætt um málið við Sigurð Inga. Þá hafi hún lagt mikla áherslu á að ferlið væri opið og fjölmiðlar fengu gögn nefndarinnar óskuðu þeir eftir þeim.

Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélags Íslands, segir að nýr Vegamálastjóri þurfi menntun og reynslu, ekki menntun eða reynslu.Vísir

Vildi að sem flestir gætu sótt um

Verkfræðingafélag Íslands hefur gagnrýnt að ekki hafi verið krafist verkfræðimenntunar á háskólastigi þegar embættið var auglýst, líkt og gert var fyrir tíu árum þegar Hreinn Haraldsson, fráfarandi vegamálastjóri, var skipaður í embættið.

Krafist var háskólamenntunar á meistarastigi eða sambærilegrar reynslu sem nýttist í starfi. Verkfræðingafélagið telur að nýr vegamálastjóri þurfi að vera bæði reynslumikill og menntaður.

„Forstjórinn er sá sem rekur Vegagerðina, sem er veghaldari og rekur því vegakerfi landsins. Mikilvægt er að til staðar sé ekki einungis stjórnunarþekking. Það þarf eitthvað fleira. Þetta snýst um að menn geri kröfur um menntun og reynslu þegar verið er að ráða í mikilvæg störf ríkisins,“ sagði Páll Gíslason, formaður VFÍ, í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Sigurður Ingi segir að að umræða um verkfræðimenntun hafi ekki komið upp þegar verið var að smíða auglýsinguna. Hann hafi hins vegar velt einu atriði fyrir sér, einmitt til að útiloka ekki reynslumikla verkfræðinga.

„Menn voru að velta fyrir sér kröfum um sérstakra mastersgráðu,“ segir Sigurður Ingi. Það hafi runnið upp fyrir honum að reynslumeiri verkfræðingar væru margir hverjir ekki með meistaragráðu.

„Það er bara síðustu tíu til fimmtán ár sem það hefur verið lenska að menn fari í master,“ segir Sigurður Ingi.

„Ég var að horfa til þess að sem flestir gætu sótt um.“

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og formaður hæfnisnefndar. Ekki hefur náðst í Ara Kristinn í vikunni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Nálgast starfið af auðmýkt

Hæfnisnefnd skilaði skýrslu til Lilju Alfreðsdóttur að viðtölum loknum. Var Bergþóra metin hæfust með 365 stig af 400 mögulegum, níu meira en næsti maður. Hinir þrír umsækjendurnir sem voru boðaðir í lokaviðtöl voru Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar, og Róbert Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík.

Að því er segir í greinargerð hæfnisnefndar voru skilgreindir níu hæfnisþættir, ásamt vægi þeirra, vegna einkunnagjafarinnar. Hæfnisþættirnir voru menntun, stjórnunarreynsla (25% vægi), reynsla af rekstri og áætlanagerð (20% vægi), reynsla af stefnumótun (10% vægi), fagleg þekking á samgöngum eða atvinnulífi (15% vægi), reynsla af þátttöku í alþjóðasamstarfi (10% vægi), hæfileikar til að miðla upplýsingum á góðri íslensku í mæltu og rituðu máli (13% vægi), góð kunnátta í ensku (5% vægi) og góð kunnátta í Norðurlandamáli æskilegt (2% vægi).

Hæfnisnefndina Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess og Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Aðalsteinn og Guðný hafa vísað á ráðuneytið og formann nefndarinnar Ara Kristinn sem ekki hefur náðst í það sem af er viku.

Bergþóra hefur starfað sem stjórnandi undanfarin tuttugu ár, síðast sem forstjóri ÍSAM ehf. þar sem hún lauk störfum í mars eftir tvö og hálft ár í starfi. ÍSAM skilaði 300 milljóna króna tapi á hennar síðasta ári í starfi. Þá var hún framkvæmdastjóri Líflands og Kornax og hjá Fastus. Hún lauk kandídatsprófi í dýralækningum árið 1991, námi í rekstrar og viðskiptafræði árið 2000 og markaðsfræðum árið 2005. Hún segir að starfið leggist vel í sig.

„Þetta er viðamikið og spennandi verkefni. Ég fer með auðmýkt í farteskinu og byrja að læra, eins og maður gerir á nýjum stað,“ sagði Bergþóra í viðtali við Fréttablaðið í gær.

Laun vegamálastjóra eru 1,6 milljónir króna samkvæmt nýjum úrskurði Kjararáðs.

Ekki náðist í Bergþóru við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Með auðmýkt í farteskinu

„Starfið leggst mjög vel í mig. Þetta er viðamikið og spennandi verkefni. Ég fer með auðmýkt í farteskinu og byrja að læra, eins og maður gerir á nýjum stað,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir sem hefur verið skipuð forstjóri Vegagerðarinnar.

Segir menntun skipta máli við ráðningu forstjóra Vegagerðarinnar

Bergþóra Þorkelsdóttir var skipaður forstjóri Vegagerðarinnar í síðustu viku, en samgöngu og sveitarstjórnarráðherra skipar í embættið. Umræddur ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson vék frá ráðningu vegna vinskaps hans og Bergþóru og var Lilja Alfreðsdóttir sett ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×