Haukar unnu baráttusigur á KA/Þór, 29-27, norðan heiða í kvöld en með sigrinum eru Haukarnir komnir upp í þriðja sæti Olís-deildar kvenna.
Haukarnir voru sterkari í fyrri hálfleik og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13, en þær náðu mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik.
Í síðari hálfleik komu norðanstúlkur mjög sterkar til baka og náðu að minnka muninn í eitt mark er líða fór á leikinn. Haukarnir stóðu áhlaupið af sér og unnu tveggja marka sigur að lokum, 29-27.
Martha Hermannsdóttir og Sólveig Lára Kristjánsdóttir voru markahæstar hjá KA/Þór, báðar með sex mörk, en nýliðarnir eru í fimmta sætinu.
Maria Ines Pereira skoraði tíu mörk í Haukum en hún var í sérflokki. Hún var lang markahæst á vellinum en Haukarnir eru í þriðja sætinu, að minnsta kosti þangað til á fimmtudag er umferðin klárast.
Naumur sigur Hauka fyrir norðan
Anton Ingi Leifsson skrifar
