Enski boltinn

Everton ætlar að byggja 52 þúsund sæta völl

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Everton hefur spilað í rúma öld á Goodison Park
Everton hefur spilað í rúma öld á Goodison Park vísir/getty
Everton ætlar að byggja nýjan heimavöll sem mun taka 52 þúsund manns í sæti og verður staðsettur á Bramley Moor Dock. Þetta er í fjórða skiptið sem Everton leggur til að færa heimavöll sinn.

Tillögur Everton eru enn á upphafsstigi en vonast verður eftir því að geta lagt til formlega tillögu seinni hluta ársins 2019.

Svæðið sem Everton ætlar sér að byggja nýja völlinn á er á bökkum Mersey árinnar.

Möguleiki verður á því að bæta 10 þúsund sætum við til viðbótar og þá er Everton tilbúið að gera ráð fyrir standandi svæðum fari svo að lögin sem banna þau verði felld niður.

Goodison Park tekur tæplega 40 þúsund manns í sæti.

Þegar Farhad Moshiri keypti 49,9 prósenta hlut í Everton árið 2016 ætlaði hann að færa félagið til Walton Hall Park en sú tillaga var felld af borgarbúum. Þá fór félagið að huga að því að færa sig til Bramley Moore Dock.

Everton vonast eftir því að völlurinn verði tilbúinn fyrir tímabilið sem hefst sumarið 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×