Enski boltinn

Leikstíll Leicester hentar Vardy illa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
"Afhverju fæ ég ekki boltann?“
"Afhverju fæ ég ekki boltann?“ vísir/getty
Jamie Vardy segist ekki passa inn í leikstíl Claude Puel hjá Leicester City en heitir því að aðlaga sig betur.

Puel tók við Leicester í október á síðasta ári og hefur Vardy skorað 20 mörk fyrir Leicester síðan. Hann skoraði 24 mörk tímabilið þegar Leicester vann Englandsmeistaratitilinn 2015-16.

Vardy var í viðtali hjá Sky Sports og var spurður að því hvort leikstíll Puel henti honum.

„Nei. En það er undir mér komið að aðlagast honum,“ svaraði enski framherjinn.

„Þetta er stundum pirrandi en við þurfum bara að halda áfram að vinna í okkar leik og á endanum mun þetta skila okkur því að við verðum fljótari í að koma okkur í sóknarstöður á vellinum.“

Nárameiðsli tóku sig upp aftur hjá Vardy á dögunum og því var hann ekki með í tapinu fyrir City í deildarbikarnum í miðri viku. Vardy segist ekki þurfa að fara í aðgerð en tímabilið sem fram undan er þar sem margir leikir verða spilaðir á stuttum tíma hentar honum illa.

„Auðvitað vil ég spila eins mikið og hægt er en ef ég þarf að sleppa einum leik í stað þess að hætta á að verða úti í lengri tíma þá geri ég það.“

Vardy verður þó líklega á sínum stað í byrjunarliði Leicester gegn Chelsea á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×