Enski boltinn

Sjáðu öll mörk Solskjær fyrir Manchester United | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær kunni að klára færin.
Ole Gunnar Solskjær kunni að klára færin. getty/john Peters
Ole Gunnar Solskjær stýrir Manchester United í fyrsta sinn á morgun þegar að liðið heimsækir Aron Einar Gunnarsson og félaga í Cardiff í síðdegisleik laugardagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Ole Gunnar var kynntur til leiks í vikunni og var léttur á fyrsta blaðamannafundi sínum í dag þar sem hann grínaðist með að hafa verið oftar en nokkur annar maður á varamannabekknum.

Norski framherjinn var eins mikill ofur varamaður og þeir finnast í boltanum og fullkominn liðsmaður en aldrei á ellefu ára ferli á Old Trafford var hann með vesen þrátt fyrir að vera ekki fyrsti maður á skýrslu.

Solskjær skoraði 126 mörk í 366 leikjum en hann skoraði 18 deildarmörk fyrsta tímabilið sitt eftir komuna frá Molde 1996/1997. Hann átti aldrei eftir að skora meira í deildinni en setti þó 17 í deild og 25 í heildina tímabilið 2001/2002 þegar að hann byrjaði fleiri leiki en oft áður.

Norðmaðurinn glímdi við erfið meiðsli frá 2003-2006 og spilaði aðeins 24 leiki í öllum keppnum á þeim tíma en hann sneri aftur tímabilið 2007/2007 og skoraði ellefu mörk í 32 leikjum í öllum keppnum er United endurheimti Englandsmeistaratitilinn.

Það vill nú þannig til að Youtube-síða Manchester United setti öll mörkin hans Ole Gunnar Solskjær saman í eitt hálftíma langt myndband fyrir tveimur mánuðum síðan. Það er eins og einhver hafi fundið á sér að launmorðinginn með barnsandlitið væri að koma aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×