Enski boltinn

Gylfi mætti með bláa jólahúfu og gladdi krakka á barnaspítala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í heimsókninni.
Gylfi Þór Sigurðsson í heimsókninni. Skjámynd/Everton
Það hefur verið löng hefð fyrir því að leikmenn Everton gleðji krakka á Alder Hey barnaspítalanum fyrir jólin og Gylfi Þór Sigurðsson og félagar klikkuðu ekkert á því í ár.

Þetta er önnur ferð Gylfa á Alder Hey barnaspítalann í Liverpool en íslenski landsliðsmaðurinn kom til Everton í byrjun síðasta tímabils.

Everton hefur lengi verið í samvinnu við þennan virta barnaspítala sem sinni um 275 þúsund veikum börnum og unglingum og fjölskyldum þeirra á hverju ári.

Allir leikmenn aðalliðs Everton komu með í heimsóknina og þeir mættu líka færandi hendi með jólagjafir fyrir krakkana.

Gylfi og liðsfélagar hans gáfu sér líka tíma til að ræða við krakkana og fjölskyldur þeirrra og úr varð mjög gefandi og skemmtilegur dagur fyrir alla sem komu að þessu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá heimsókninni sem Evertin setti inn á samfélagsmiðla sína.

Þar má sjá okkar mann með bláa jólahúfu en allur Everton-hópurinn mætti frekar með bláa húfi í stað þess að klæðast lit nágranna sinna og erkifjenda í Liverpool FC.





Það verður síðan nóg að gera hjá Gylfa og strákunum í Everton um jólin því framundan eru fjórir leikir á stuttum tíma.

Everton mætir fyrst gamla félagi Gylfa, Tottenham, á Þorláksmessu en svo taka við leikir á móti Burnley, Brighton og Leicester.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×