Erlent

Reyndu að koma höggi á CNN með fölsuðum tölvupósti

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil umræða hefur farið af stað um skovopn í Bandaríkjunum eftir árásina á Flórída á Valentínusardag. CNN gerði umræðuþátt í vikunni á formi borgarafundar þar sem nemendur frá skólanum spurðu þingmenn meðal annars spurninga.
Mikil umræða hefur farið af stað um skovopn í Bandaríkjunum eftir árásina á Flórída á Valentínusardag. CNN gerði umræðuþátt í vikunni á formi borgarafundar þar sem nemendur frá skólanum spurðu þingmenn meðal annars spurninga. Vísir/AFP
Fjölskylda nemanda við framhaldsskólann á Flórída þar sem vopnaður maður drap sautján manns í þarsíðustu viku lét fjölmiðla fá falsaðan tölvupóst til að sýna fram á að CNN-fréttastöðin hefði reynt að stýra ummælum hans í sjónvarpsþætti.

Hægrisinnaðir fjölmiðlar í Bandaríkjunum stukku á fréttir þess efnis að CNN hefði skrifað spurningu fyrir nemanda við Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann fyrir umræðuþátt um skotárásina í síðustu viku. Donald Trump forseti og stuðningsmenn hans hafa ítrekað vegið að heiðri CNN og sakað stöðina um að flytja „falsfréttir“.

Colton Haab, nemandi við skólann, sagði þannig þáttastjórnanda Fox News á fimmtudag að framleiðandi hjá CNN hefði endurskrifað spurningu til þingmanns sem hann hafði lagt til. Framleiðandinn hafi sagt honum að „halda sig við handritið“.

Forsvarsmenn CNN mótmæltu þessari lýsingu harðlega og sögðust hafa sannanir fyrir að hún ætti ekki við rök að styðjast. Þeir sögðu að Haab og framleiðandinn hefðu sammælst um að hann myndi spyrja einnar spurningar. Faðir hans hafi hins vegar síðan krafist þess að sonur sinn fengi að lesa langa ræðu með þremur spurningum til þingmanna.

Framleiðandinn hafi svarað því að ræðan væri alltof löng og að Haab þyrfti að „halda sig við“ spurninguna sem upphaflega hafði verið rætt um.



Eyddi út orðum úr tölvupósti

Business Insider segir að þegar tölvupóstar þessa efnis sem CNN afhenti þegar aðrir fjölmiðlar spurðust fyrir um málið voru bornir saman við þá sem fjölskylda Haab sendi kom í ljós að þeim hafði verið breytt.

Í útgáfu CNN sagði framleiðandinn við föðurinn að sonur hans þyrfti að halda sig við spurninguna sem hann hafði upphaflega lagt fram. Í útgáfunni frá Haab-fjölskyldunni hafði orðunum „sem hann sendi inn“ verið eytt út. Svo virðist sem að faðir drengsins hafi verið sá sem breytti skjalinu síðast.

Talsmaður CNN segir óheppilegt að tilraun til að koma óorði á stöðina hafi dregið athyglina frá tilgangi umræðuþáttarins. Stöðin hafi hins vegar séð sig knúna til að bregðast við þegar í ljós kom að tölvupóstum hafði verið hagrætt. Faðir drengsins tjáði sig ekki um málið.


Tengdar fréttir

Lifði af skotárásina og þjarmaði að þingmanni í sjónvarpssal

Cameron Kasky, einn þeirra nemenda Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans sem hafa verið hvað háværastir í baráttu sinni fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum, gekk hart að öldungardeildarþingmanninum og Repúblikananum Mark Rubio í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×