Innlent

Lokað um Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Öxnadalsheiði

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá kafaldsbyl á Holtavörðuheiði.
Frá kafaldsbyl á Holtavörðuheiði. STEINGRÍMUR ÞÓRÐARSON
Vegirnir um Holtavörðuheiði og Bröttubrekku eru lokaðir en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni verður skoðað hvort tilefni sé til að opna þá klukkan 13. Vegurinn um Öxnadalsheiði er einnig lokaður en þar verður sömuleiðis athugað klukkan 13 hvort tilefni sé til að opna hann. Hjáleið er um Dalvík og Siglufjarðarveg.

Samkvæmt veðurspá er búist við því að það muni hvessa í nótt og með hríðarveðri og takmörkuðu skyggni frá Eyjafjöllum og austur á Austfirði. Á Suðurlandi og í Borgarfirði, snjófjúk og blint undir morgun. Við birtingu vaxandi vindur, skafrenningur og snjór eða él í flestum landshlutum.

Hálka er á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði, Hellisheiði og Mosfellsheiði en snjóþekja í Þrengslum. Ófært er á Kjósarskarði.

Það er víðast hvar þæfingur eða snjóþekja á Suðurlandi og éljagangur og sums staðar einhver skafrenningur.

Á Vesturlandi er þæfingur, hálka, snjóþekja og éljagangur.

Á Vestfjörðum er hálka, snjóþekja og skafrenningur. Þæfingur er í Ísafjarðardjúpi.

Á Norðurlandi vestra er hálka og snjóþekja, skafrenningur mjög víða. Hvasst er við Stafá á Siglufjarðarvegi.

Á Norðaustur- og Austurlandi eru hálkublettir en greiðfært á þó nokkrum stöðum. Hálka er á Fjarðarheiði.

Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×