Innantómar hitaeiningar Bergur Ebbi skrifar 19. janúar 2018 07:00 Ég sat með félaga mínum og borðaði lasagna. Líklega er ég algjör plebbi en þessi ítalski ofnbakaði réttur með allri sinni kjötsósu, bræddum osti og pastaplötum hefur alltaf verið uppáhaldsmaturinn minn. Jafnvel nafnið sjálft, lasagna, lasanja, kemur ró á magann – og ég læri það sífellt betur, að ef ró er yfir maganum þá er einnig ró yfir sálinni. Kvíðinn fæðist og deyr í kvið manneskjunnar. En í þetta skiptið náði ég ekki að njóta matarins. Félagi minn benti mér samviskusamlega á að lasagna væri fullt af svokölluðum innantómum hitaeiningum. Ég hafði aldrei heyrt á þetta minnst. Hann útskýrði fyrir mér að lasagna væri vissulega orkuríkt og gæfi manni eldsneyti til að lifa, en í hverri hitaeiningu af lasagna væri lítið annað en einmitt orka. Það væru engin vítamín eða trefjar. Ég er reyndar ekki hættur að borða lasagna út af þessu en ég borða það aldrei framar án þess að hugsa um þetta hugtak: Innantómar hitaeiningar. Þetta er svo gríðarlegt hugtak ef maður spáir í það, svo þversagnarkennt, bólgið og klúðurslegt, en samt með vott af skáldlegri dýpt – allavega ef maður teygir hugsun sína nógu nálægt himninum. En byrjum á að líta ofan í jörðina. Mannkynið hefur líklega í allan sinn líftíma vitað að jörðin er heit að innan. Það þarf engin vísindi til að segja manni að hraunið sem vellur upp úr sprungum er brennandi heitt. Nánar tiltekið um þúsund gráður á Celcius, eins og vísindin hafa síðar miðlað með sínu tungumáli. Í seinni tíð hafa vísindin einnig fært okkur upplýsingar um að jörðin sé enn heitari sé kafað dýpra ofan í hana. Samkvæmt útreikningum er kjarni jarðarinnar líklega að minnsta kosti um sex þúsund gráður á Celcius. Jörðin er heit að innan og eftir því sem nær er farið kjarnanum, því heitari er hún. Við sjálf erum líka heit að innan. Svo framarlega sem andrúmsloftið í kringum okkur er undir 37 gráðum á Celcius þá erum við mannfólkið gangandi ofnar. En ólíkt jörðinni þá er enginn glóandi kjarni í okkur. Við erum nokkurn veginn jafn heit um allan kroppinn. Jafnvel sjálft hjartað, er ekki heitara en aðrir hlutar líkamans. Þetta vitum við öll, en samt eru þetta mér alltaf ákveðin vonbrigði. Er hjarta manneskjunnar ekkert heitara en innviðir lærleggjarins? Er engin glóandi kvika djúpt inni í sérhverri manneskju, enginn brunandi heitur kyndiklefi þar sem kolarykugir verkamenn með stingandi hvít augu moka sleitulaust og strjúka af sér svitann? Hvaðan kemur þá frumkraftur okkar? Líkaminn er víst þannig uppbyggður að í honum er stöðugt flæði. Blóð sem er í hjartanu er skömmu síðar runnið fram í fingurgóma og kemur örlítið kaldara til baka og heldur þannig hjartanu í sama hitastigi og líkaminn allur. Við manneskjurnar (og öll blóðheit dýr ef út í það er farið) erum ekki eins uppbyggð og plánetan sem við búum á. Við erum eiginlega kjarnalaus – heilinn er miðstöð rafstýringar, hjartað er dælustöðin og svo eru alls kyns síur og dóterí dreift um allan kropp. Það er enginn glóandi kjarni. Fólk getur keypt alla þá sálfræðiþjónustu sem það vill og kafað endalaust ofan í sjálft sig og fundið ýmislegt, en það mun aldrei finna sex þúsund gráðu heitan eldhnött, hvorki í sálfræðilegum, líffræðilegum né nokkurs konar hugmyndafræðilegum skilningi. Sé manneskjan mæld og dæmd út frá hitaleiðni má eiginlega segja að hún sé innantóm, innantóm hitaeining. Með þessu á ég ekki við að mannslíkaminn sé ekki sneisafullur af trefjum og snefilefnum (hann er það eflaust), heldur er það eitthvað við þennan skort á hitakjarna, sem fyllir mann vonleysi. Maður verður hálf innantómur. Hvaðan kemur þessi hiti sem maður býr til og hvað á maður að gera við hann? Er maður dæmdur til að ganga á þessari jörð sem innantóm hitaeining? Ég er enginn spámaður og veit ekki svarið, en tilgáta mín er sú, að lausnin hljóti að felast í því að hætta að leita inn á við. Hitanum er ætlað að streyma eitthvert annað. Kjarninn verður til þegar við innantómu hitaeiningarnar gerum eitthvað saman, látum hlýju streyma frá hjarta til hjarta. En það er kjarni sem er ekki neinum manni sýnilegur. Hann er að finna í stærra samhengi sem erfitt er að koma í mál. Ég er innantóm hitaeining og ég sit og borða lasagna. Innantómar hitaeiningar. Og ég nýt hverrar þeirra í botn. Það þurfa ekki allar hitaeiningar að vera djúpar og merkingarríkar. Sumar mega vera ósköp grunnt þenkjandi, sáttar ef þær fá kaldan bjór og enska boltann. Dýptin liggur annarstaðar, í streymi hugmynda og hita, milli fólks og hópa. Allir eiga sín augnablik, jafnvel innantómar hitaeiningar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergur Ebbi Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun
Ég sat með félaga mínum og borðaði lasagna. Líklega er ég algjör plebbi en þessi ítalski ofnbakaði réttur með allri sinni kjötsósu, bræddum osti og pastaplötum hefur alltaf verið uppáhaldsmaturinn minn. Jafnvel nafnið sjálft, lasagna, lasanja, kemur ró á magann – og ég læri það sífellt betur, að ef ró er yfir maganum þá er einnig ró yfir sálinni. Kvíðinn fæðist og deyr í kvið manneskjunnar. En í þetta skiptið náði ég ekki að njóta matarins. Félagi minn benti mér samviskusamlega á að lasagna væri fullt af svokölluðum innantómum hitaeiningum. Ég hafði aldrei heyrt á þetta minnst. Hann útskýrði fyrir mér að lasagna væri vissulega orkuríkt og gæfi manni eldsneyti til að lifa, en í hverri hitaeiningu af lasagna væri lítið annað en einmitt orka. Það væru engin vítamín eða trefjar. Ég er reyndar ekki hættur að borða lasagna út af þessu en ég borða það aldrei framar án þess að hugsa um þetta hugtak: Innantómar hitaeiningar. Þetta er svo gríðarlegt hugtak ef maður spáir í það, svo þversagnarkennt, bólgið og klúðurslegt, en samt með vott af skáldlegri dýpt – allavega ef maður teygir hugsun sína nógu nálægt himninum. En byrjum á að líta ofan í jörðina. Mannkynið hefur líklega í allan sinn líftíma vitað að jörðin er heit að innan. Það þarf engin vísindi til að segja manni að hraunið sem vellur upp úr sprungum er brennandi heitt. Nánar tiltekið um þúsund gráður á Celcius, eins og vísindin hafa síðar miðlað með sínu tungumáli. Í seinni tíð hafa vísindin einnig fært okkur upplýsingar um að jörðin sé enn heitari sé kafað dýpra ofan í hana. Samkvæmt útreikningum er kjarni jarðarinnar líklega að minnsta kosti um sex þúsund gráður á Celcius. Jörðin er heit að innan og eftir því sem nær er farið kjarnanum, því heitari er hún. Við sjálf erum líka heit að innan. Svo framarlega sem andrúmsloftið í kringum okkur er undir 37 gráðum á Celcius þá erum við mannfólkið gangandi ofnar. En ólíkt jörðinni þá er enginn glóandi kjarni í okkur. Við erum nokkurn veginn jafn heit um allan kroppinn. Jafnvel sjálft hjartað, er ekki heitara en aðrir hlutar líkamans. Þetta vitum við öll, en samt eru þetta mér alltaf ákveðin vonbrigði. Er hjarta manneskjunnar ekkert heitara en innviðir lærleggjarins? Er engin glóandi kvika djúpt inni í sérhverri manneskju, enginn brunandi heitur kyndiklefi þar sem kolarykugir verkamenn með stingandi hvít augu moka sleitulaust og strjúka af sér svitann? Hvaðan kemur þá frumkraftur okkar? Líkaminn er víst þannig uppbyggður að í honum er stöðugt flæði. Blóð sem er í hjartanu er skömmu síðar runnið fram í fingurgóma og kemur örlítið kaldara til baka og heldur þannig hjartanu í sama hitastigi og líkaminn allur. Við manneskjurnar (og öll blóðheit dýr ef út í það er farið) erum ekki eins uppbyggð og plánetan sem við búum á. Við erum eiginlega kjarnalaus – heilinn er miðstöð rafstýringar, hjartað er dælustöðin og svo eru alls kyns síur og dóterí dreift um allan kropp. Það er enginn glóandi kjarni. Fólk getur keypt alla þá sálfræðiþjónustu sem það vill og kafað endalaust ofan í sjálft sig og fundið ýmislegt, en það mun aldrei finna sex þúsund gráðu heitan eldhnött, hvorki í sálfræðilegum, líffræðilegum né nokkurs konar hugmyndafræðilegum skilningi. Sé manneskjan mæld og dæmd út frá hitaleiðni má eiginlega segja að hún sé innantóm, innantóm hitaeining. Með þessu á ég ekki við að mannslíkaminn sé ekki sneisafullur af trefjum og snefilefnum (hann er það eflaust), heldur er það eitthvað við þennan skort á hitakjarna, sem fyllir mann vonleysi. Maður verður hálf innantómur. Hvaðan kemur þessi hiti sem maður býr til og hvað á maður að gera við hann? Er maður dæmdur til að ganga á þessari jörð sem innantóm hitaeining? Ég er enginn spámaður og veit ekki svarið, en tilgáta mín er sú, að lausnin hljóti að felast í því að hætta að leita inn á við. Hitanum er ætlað að streyma eitthvert annað. Kjarninn verður til þegar við innantómu hitaeiningarnar gerum eitthvað saman, látum hlýju streyma frá hjarta til hjarta. En það er kjarni sem er ekki neinum manni sýnilegur. Hann er að finna í stærra samhengi sem erfitt er að koma í mál. Ég er innantóm hitaeining og ég sit og borða lasagna. Innantómar hitaeiningar. Og ég nýt hverrar þeirra í botn. Það þurfa ekki allar hitaeiningar að vera djúpar og merkingarríkar. Sumar mega vera ósköp grunnt þenkjandi, sáttar ef þær fá kaldan bjór og enska boltann. Dýptin liggur annarstaðar, í streymi hugmynda og hita, milli fólks og hópa. Allir eiga sín augnablik, jafnvel innantómar hitaeiningar.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun