Erlent

Assange bauð röngum Hannity upplýsingar um Demókrata

Samúel Karl Ólason skrifar
Sean Hannity og Julian Assange.
Sean Hannity og Julian Assange. Vísir/Getty
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, bauðst til þess að útvega þáttastjórnenda Fox, Sean Hannity, upplýsingar um þingmann Demókrataflokksins. Gallinn er sá að Assange var í rauninni ekki að tala við Sean Hannity.

Twitter reikningi Hannity var lokað um tímabil á föstudagskvöldið og sagði Twitter að einhver annar en Hannity hefði náð stjórn á reikningi hans. Í kjölfarið voru nokkrir nýir reikningar stofnaði í nafni Sean Hannity. Þeirra á meðal var reikningur Dell Gilliam sem var veik heima um helgina og ákvað að bregða sér á leik til að stytta sér stundir.

Því stofnaði hún Twitter-reikninginn @SeanHannity_ á aðfararnótt laugardagsins. Hún safnaði sér mörgum fylgjendum á skömmum tíma og sendi skilaboð á Julian Assange þar sem hún sagðist vilja ræða við hann.

Assange svaraði um hæl, sagði ánægjulegt að Hannity væri mættur aftur á Twitter og sagðist tilbúinn í spjall. Hann sagði Hannity geta notað „aðrar leiðir“ til að tala við hann.“

„Ég fékk samviskubit. Hann hélt í alvörunni að hann væri að tala við Sean Hannity,“ sagði Gilliam við Daily Beast. Hún sýndi blaðamanni miðilsins skjáskot af samskiptum sínum við Assange.

Gillam sagðist þá ekki geta trúað því sem væri að gerast. Sem Hannity sagðist hún vera þreytt eftir átök föstudagsins og spurði Assange hvernig hann hefði það.

„Ég er ánægður sem lengi sem baráttan stendur yfir!“ svaraði Assange.

Gilliam stakk þá upp á tíma til að tala við Assange og hann sagðist klár í það. Sömuleiðis sagði hann að Hannity gæti einnig sent honum skilaboð með öðrum leiðum og hann hefði fregnir af Warner.

Þar var Assange að öllum líkindum að tala um þingmanninn Mark Warner, æðsta Demókratann í nefnd öldungadeildarinnar um njósnamál. Sú nefnd er meðal annars að rannsaka afskipti Rússa af forsetakosningum Bandaríkjanna árið 2016.

Skömmu eftir samskipti Gilliam við Assange steig Warner fram í fjölmiðlum og sagði þingnefndina hafa fengið ný gögn í rannsókninni. Þau gögn opnuðu á fjölmargar spurningar varðandi Donald Trump og Rússland.

Talsmaður Warner benti Daily Beast á að Wikileaks væri í raun angi leyniþjónustu Rússlands. Wikileaks hafi sem dæmi birt tölvupósta sem hakkarar á vegum yfirvalda Rússlands stálu af vefþjónum Landsnefndar Demókrataflokksins í aðdraganda kosninganna.


Tengdar fréttir

Árásum íhaldsmanna á FBI fjölgar

Útlit er fyrir að Repúblikanar séu með markvissum hætti að reyna að grafa undan trúverðugleika FBI og Mueller. Í það minnsta meðal stuðningsmanna flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×