Innlent

Lögreglan lýsir eftir manni í tengslum við árásir í Garðabæ

Samúel Karl Ólason skrifar
Garðabær.
Garðabær. Fréttablaðið/Sigurjón
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar mannsins á meðfylgjandi mynd vegna rannsóknar á málum sem snúa að árásum á börn í Garðabæ. Ráðist var á tvær ungar stúlkur í Garðabæ í gær og eru nú fimm sambærileg tilvik til rannsóknar. Að sögn lögreglu er málið í algjörum forgangi og unnið er út frá því að sami maður sé að verki. Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglunnar hvort umræddur maður liggi undir grun.

Lögreglan biður manninn, eða þá sem þekkja hann, að hafa strax samband við lögreglu gegnum símann 444-1000, netfangið abendingar@lrh.is eða einkaskilaboð á fésbókarsíðu embættisins.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í gærkvöldi að hún hefði til rannsóknar tvö ný tilvik þar sem ráðist var á stúlkur á gangi í Garðabæ. Eru því alls fimm sambærilegar árásir til rannsóknar hjá lögreglu.

Sjá einnig: Stúlkan dregin á bak við hól á leikvelli

Nýjustu atvikin áttu sér stað á milli klukkan fjögur og sex, síðdegis í gær og var þetta á svipuðum stað og þar sem ráðist var á stúlku á fimmtudag, en það var á göngustíg við Arnarnesmýri, meðfram Gullakri og Góðakri. Allar stúlkurnar sem veist hefur verið að eru á svipuðum aldri, eða um átta til tíu ára gamlar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu átti önnur árásin í gær sér stað á leikvelli milli Holtsbúðar og Reykjanesbrautar. Árásarmaðurinn hafi verið á unglingsaldri, klæddur grárri hettupeysu, svörtum gallabuxum og svörtum strigaskóm. Stúlkan hafi verið að leik með vinkonu sinni þegar maðurinn greip hana og dró á bak við hól á leikvellinum. Þegar stúlkan öskraði sleppti hann takinu.

Lögregla fór fram á það við fjölmiðla að mynd af manninum sem leitað var yrði fjarlægð eftir að í ljós kom að um barn væri að ræða. Fréttastofa hefur orðið við þeirri ósk og því hefur verið skipt um mynd hér að ofan.


Tengdar fréttir

Auka eftirlit í Garðabæ vegna árása

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið að auka eftirlit í Garðabæ vegna tveggja atvika þar sem tilkynnt var um að veist hafi verið að stúlkum í Garðabæ í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×