Erlent

Erdogan heitir því að ráðast á Manbij

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, heitir því að tyrkneski herinn og uppreisnarmenn sem Tyrkir styðja við bakið á muni ráðast á bæinn Manbij í Sýrlandi og reka sýrlenska Kúrda þaðan. Að Tyrkir væru tilbúnir til að taka allt yfirráðasvæði Kúrda í Sýrlandi.

Um síðustu helgi hófu Tyrkir aðgerðir gegn Kúrdum í Afrinhéraði og virðist Manbij vera næsta skotmark þeirra, ef marka má orð forsetans. Með hótunum um að útvíkka aðgerðir Tyrkja fer hann beint gegn köllum bandamanna Tyrklands í Atlantshafsbandalaginu um stillingu og takmarkaðar aðgerðir.

Í byrjun síðasta árs sendu Bandaríkin meðlimi 75. Ranger sérsveitarinnar til Manbij með því markmiði að koma í veg fyrir átök á milli SDF og Tyrkja. Í heildina eru um tvö þúsund bandarískir hermenn í Sýrlandi og eru flestir þeirra á yfirráðasvæði Kúrda austan við Efratána.

Sjá einnig: Bandaríkin fjölga hermönnum í Sýrlandi

Uppreisnarmenn sem Tyrkir styðja við bakið á skjóta reglulega á þessa hermenn, samkvæmt utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, og hafa þeir nokkrum sinnum svarað skothríðinni.

Nú er Erdogan þó að hóta því að ráðast á Manbij og „hreinsa“ bæinn, þrátt fyrir veru bandarískra hermanna þar. Forsetinn sagði Tyrki tilbúna til að berjast gegn Kúrdum alla leið til Írak.

Samband Tyrklands og Bandaríkjanna hefur líklegast ekki verið verra frá áttunda áratugnum eftir innrás Tyrklands á Kýpur.


Tengdar fréttir

Harðir bardagar geisa í Afrin

Tyrkir sögðust í gær hafa tekið tvö þorp í norðurhluta héraðsins en YPG mun þó hafa rekið þá aftur á brott í stórri gagnárás.

Tyrkir handtóku ellefu fyrir að dreifa hryðjuverkaáróðri

Tyrkir grípa til aðgerða gegn þeim sem styðja Kúrda. Hafa fellt 268 Kúrda í Sýrlandi frá því á laugardag og lofa að halda áfram. Enn deilt um efnavopnaárásir sunnar í Sýrlandi. Bandaríkin segja Rússa bera ábyrgð á efnavopnaárásum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×