Erlent

„Hvort viltu verða fyrir lest eða steypubíl?“

Samúel Karl Ólason skrifar
Enn sem komið er er allt rólegt undan ströndum Suður-Karólínu.
Enn sem komið er er allt rólegt undan ströndum Suður-Karólínu. Vísir/AP
Fellibylurinn Florence hefur verið lækkaður niður í annars flokks fellibyl eftir að vindhraði hans lækkaði úr 225 kílómetrum á klukkstund í um 175 kílómetra, sem samsvarar rúmum 48 metrum á sekúndu. Það var þó búist við því að hægja myndi á fellibylnum þegar hann nálgaðist land en á móti kemur hefur ummál Florence aukist til muna og samhliða því hefur sjávarflóðahættan vegna hans aukist til muna.

Búist er við að Flórens skelli af miklum krafti á Norður- og Suður-Karólínu á morgun en bæði alríkisyfirvöld sem og yfirvöld í ríkjunum hafa varað við því að fellibylurinn geti orðið einn sá öflugasti sem skollið hafi á austurströnd Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Óttast að Flórens valdi umhverfisslysi



Óttast er að þegar Florence nái landi muni gífurleg rigning fylgja fellibylnum og það muni leiða til mannskæðra flóða í Karólínuríkjunum. Mögulegt er að Florence gæti verið orðinn fyrsta stigs fellibylur þegar hann nær landi og þá með um 160 kílómetra vindhraða.

Einn yfirmaður almannavarna Bandaríkjanna, FEMA, sagði AP fréttaveitunni að breytingar Florence hefðu í rauninni ekki miklar afleiðingar og gerði hann það á mjög myndrænan hátt.

„Hvort viltu verða fyrir lest eða steypubíl?“

Staðreyndin er sú að mun fleiri deyja vegna vatns og flóða í fellibyljum en deyja vegna vinds. Þá geta flóð einnig leitt til mikilla skemmda, eins og mikill vindur.

Íbúar Suður-Karólínu sækja sandpoka til að verja heimili sín.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×