Erlent

Myrti móður sína og systur í hnífaárás í París

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglubílar í Trappes-hverfinu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Lögreglubílar í Trappes-hverfinu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/EPA
Tveir eru látnir og sá þriðji særður alvarlega eftir að maður vopnaður hnífi réðst á þá í úthverfi Parísar í morgun. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Lögreglumenn skutu árásarmanninn þegar hann hótaði að drepa þá.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að árásin hafi átt sér stað í Trappes-hverfi, ekki fjarri Versölum. Hverfið er þekkt fyrir gengjastríð og fátækt. Talið er að um fimmtíu íbúar hverfisins hafi farið til Sýrlands og Írak til að berjast með Ríki íslams.

Reuters-fréttastofan segir að lögreglumenn hafi skotið árásarmanninn til bana. Þriðji maðurinn sem hann stakk sé þungt haldinn. Fórnarlömb mannsins eru móðir hans og systir en sá þriðji, sem særðist, tengist honum ekki fjölskylduböndum.

Innanríkisráðherra Frakklands segir að árásarmaðurinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Árásin er ekki rannsökuð sem hryðjuverk, enn sem komið er, þrátt fyrir yfirlýsingu ISIS.

Uppfært 12:40

Breska ríkisútvarpið BBC segir að maðurinn hafi drepið móður sína og systur. Þriðju manneskjuna hafi hann sært úti á götu áður en lögreglan felldi hann. Ríki íslams hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því að maðurinn hafi framfylgt skipunum þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×