Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Klókt bragð hjá Borche │Dómararnir eiga ekki að skipta sér af stúkunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ljónagryfjan í Njarðvík er lítið og þröngt íþróttahús sem stenst ekki stuðla FIBA. Borche Ilievski, þjálfari ÍR, nýtti sér það mjög vel í leik Njarðvíkur og ÍR þegar hann fiskaði innkast fyrir lið sitt.

Á sjónvarpsupptökum af leiknum sést hvar Borche pressar Snjólf Marel Stefánsson í innkast, sem ýtir honum frá sér, og fær svo boltann dæmdan af Njarðvík því Snjólfur er dæmdur hafa stigið inn á völlinn í innkastinu.

Sérfræðingarnir í Domino's Körfuboltakvöldi höfðu mjög gaman af þessu uppátæki Borche og tók Kristinn Geir Friðriksson hattinn ofan fyrir honum.

„Þetta er bara mjög vel gert. Þetta er bara klókt,“ sagði Kristinn.

Kjartan Atli Kjartansson reyndi að malda í móinn og segja að þetta væri nú ólöglegt hjá þjálfaranum, en dómararnir dæmdu ekkert.

„Sem gamall þjálfari finnst mér þetta bara brilljant. Labbar í hann og leikur svo fórnarlambið. Dómararnir bara pappakassar að hafa ekki dæmt á þetta,“ sagði Kristinn.

Stærð Ljónagryfjunnar hafði áhrif á annað atvik í leiknum, þegar Ísak Ernir Kristjánsson lætur stuðningsmann ÍR yfirgefa fremsta bekk og fara annað hvort efst í stúkuna eða út úr húsi fyrir það að kalla hann rasista.

Mikið hefur verið fjallað um það mál í vikunni og þeir tóku þetta líka fyrir í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

Sjá einnig: Stuðningsmaður ÍR kallaði dómarann rasista og var hent út úr húsi | Myndband

„Á Ísak húsið eða?“ spyr Fannar Ólafsson. „Dómarinn hefur stjórn á allri framkvæmd innan ákveðis svæðis. Ef ég skil það rétt er það útlínur vallarins og aðeins fyrir utan það. Ég sé hvergi að hann ráði yfir stúkunni.“

Hann vildi þó taka það fram að hann væri að sjálfsögðu ekki að samþykkja hegðun stuðningsmannsins, hún sé ekki boðleg. Hins vegar ætti að einbeita sér að leiknum, ekki áhorfendunum.

Umræðurnar um bæði atvik má sjá í spilurunum í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×