Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: KR verður ekki Íslandsmeistari með þetta lið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þrátt fyrir að hafa unnið Val nokkuð sannfærandi á fimmtudaginn þá er margt sem betur getur farið hjá Íslandsmeisturum KR um þessar mundir. Þeir voru rassskelltir í bikarúrslitunum fyrr í janúar og hafa ekki verið sannfærandi í síðustu leikjum.

KR-ingar skiptu um bandarískan leikmann fyrir bikarúrslitin, létu Jalen Jenkins fara og fengu til sín Brandon Penn í staðinn. Þá voru þeir einnig með Zac Carter, sá var hins vegar á tímabundnum samning og ákváðu KR-ingar að framlengja ekki samning hans og því eru þeir bara með Penn í dag.

Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds eru ekki hrifnir af Penn og telja hann ekki vera manninn sem KR-inga vantar.

„KR verður ekki Íslandsmeistari með þennan gæja. Punktur,“ sagði Kristinn Geir Friðriksson og Fannar Ólafsson tók undir með honum.

„Það er nóg af leikmönnum sem eru fyrir utan. Þú þarft akkerið í miðjuna,“ sagði Fannar.

KR vantar að þeirra mati ógn inn í teignum sem leiðir til þess að önnur lið geta farið að pressa á KR-inga ofar á vellinum og valda þeim miklum vandræðum.

Umræðuna um KR úr Domino's Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×