Forsetar Rússlands og Tyrklands sammæltust í gær um að koma upp hernaðarlausu svæði í Idlib-héraði Sýrlands til þess að skilja stríðandi fylkingar uppreisnarmanna og stjórnarliða að.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagði eftir að samkomulagi var náð að svæðið yrði á milli 15 og 25 kílómetra breitt. Hernaðarbann þar myndi taka gildi í síðasta lagi 15. október næstkomandi og þá þyrftu allir „öfgaþenkjandi uppreisnarmenn og hryðjuverkamenn“ að yfirgefa svæðið.
Sergeí Sjoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, sagði svo að stjórnarher Bashars al-Assad Sýrlandsforseta myndi ekki ráðast í neinar frekari hernaðaraðgerðir gegn uppreisnarmönnum í Idlib. Interfax greindi frá ummælunum en þau féllu eftir samræður forsetanna tveggja.
Orrustan um Idlib gæti markað endalok Sýrlandsstríðsins. Héraðið er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna og hryðjuverkasamtaka sem hafa reynt að steypa Assad af stóli undanfarin sjö ár. Margar fylkingar hafa viðveru á svæðinu og samkvæmt BBC er sú stærsta Hayat Tahrir al-Sham en hún hefur tengsl við al-Kaída.
Assad-stjórnin hefur unnið að því að undirbúa árás á héraðið en Tyrkir höfðu undanfarið reynt að fá Rússa, helstu bandamenn Assads, til þess að koma í veg fyrir að af henni yrði. Sameinuðu þjóðirnar höfðu þrýst á friðsæla lausn og varað við mikilli mannúðarkrísu.
Svíþjóð
Ísland