- Hún hefur valdið því að framboð á fasteignamarkaði, einkum í miðborg Reykjavíkur, hefur dregist saman undanfarin ár.
- Hún hefur á sama tíma þrýst upp bæði fasteigna- og leiguverði.
- Hún hefur fært borgina nær samfélagslegum þolmörkum sínum hvað ferðaþjónustu varðar, þar sem margir íbúar borgarinnar eru ósáttir við þessa starfsemi samborgara sinna og taka gremju sína út á ferðamönnum og ferðaþjónustu.
- Hún hefur valdið titringi og óánægju meðal þeirra sem reka annars konar gistiþjónustu (gistiheimili og hótel) og finnst þeim hópi að sér vegið, sérstaklega hvað varðar ójafna samkeppnisstöðu.
Að sjálfsögðu eiga svo allir þeir sem leigja út íbúðir sínar að greiða skatta og gjöld af útleigustarfseminni eins og þessi sömu lög gera ráð fyrir. Embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er eftirlitsaðili með heimagistingu. Meðal verkefna embættisins er að vakta þá miðla sem auglýsa heimagistingu og yfirfara nýtingaryfirlit og tekjuskýrslur.
En hvernig skyldi nú hafa tekist til? Lítum á nokkrar staðreyndir:
- Rúmlega 6.000 gestgjafar um land allt bjóða upp á heimagistingu.
- Um 4.000 þessara gestgjafa starfa í Reykjavík.
- Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands velti heimagisting í gegnum Airbnb um 15 milljörðum króna árið 2017. Samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar hjá Ferðamálastofu er veltan hins vegar nær 20 milljörðum króna á síðasta ári.
- Ætla má að velta í heimagistingu í gegnum Airbnb hafi numið um 10 milljörðum króna í Reykjavík árið 2017, sem er varlega áætlað sé tekið mið af Mælaborði ferðaþjónustunnar.
- Samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar voru á síðasta ári um 3.200 gestgjafar á Airbnb um land allt með fleiri daga í útleigu en nemur 90 dögum.
- Aðeins um 1.000 gestgjafar á landinu öllu hafa skráð sig hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík.
- Ætla má að þeir skattar sem skotið er undan séu í kringum tveir milljarðar króna.
Það er skýr krafa Samtaka ferðaþjónustunnar að eftirlit með ólöglegri heimagistingu og þar með svartri atvinnustarfsemi verði stórhert nú þegar. Mannafli við eftirlit verði efldur og refsiákvæðum beitt þar sem við á. Það er óþolandi fyrir fyrirtæki sem eru með allt sitt uppi á borðum og greiða öll tilskilin gjöld og skatta að vinna við hliðina á þeim sem gera það ekki og stórskekkja þar með samkeppnishæfni þeirra heiðarlegu.