Erlent

Hamas vilja ekki lofa eldflaugaárásum þrátt fyrir kröfu stuðningsmanna

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Hamas samtökin byggja tilveru sína á andspyrnu og margir stuðningsmenn þeirra krefjast nú blóðhefnda
Hamas samtökin byggja tilveru sína á andspyrnu og margir stuðningsmenn þeirra krefjast nú blóðhefnda Vísir/EPA
Hamas samtökin eru í erfiðri stöðu og virðast klofin varðandi næstu skref eftir blóðbaðið á Gaza í fyrradag. Stuðningsmenn samtakanna krefjast eldflaugaárása í hefndarskyni en fréttaskýrendur efast um að leiðtogar þeirra sjái sér hag í að stigmagna átökin.

Hamas samtökinn boðuðu til almenns verkfalls í gær, degi eftir að ísraelskir hermenn skutu sextíu palestínska mótmælendur til bana við landamæri Gaza strandarinnar og Ísraels. Bænaturnar, sem voru notaðir til að hvetja fólk til mótmæla á mánudaginn, sendu aðeins frá sér hefðbundin bænaköll í gær og ástandið var mun rólegra.

Margt bendir til þess að mannfallið á mánudaginn hafi verið meira en leiðtogar Hamas bjuggust við. Þeir höfðu hvatt almenning eindregið til að ganga fylktu liði að landamæragirðingu Ísraels og reyna að komast þar yfir. Eftir harkaleg viðbrögð ísraelskra hermanna, og blóðbaðið sem fylgdi, beinist athygli heimsins vissulega að málstað Palestínumanna en Hamas samtökin eru um leið komin í afar erfiða stöðu heima fyrir.

Á fjöldafundi á Gaza ströndinni í gær hrópaði mannfjöldinn á eldflaugar og krafðist hefndar gegn Ísrael. Hamas byggja beinlínis tilverurétt sinn í palestínsku samfélagi á því að vera andspyrnuhópur og eiga því erfitt með að skorast undan slíkri áskorun. 

Ismail Haniya, æðsti leiðtogi samtakanna, vildi þó greinilega ekki ganga svo langt að lofa eldflaugaárásum í gær heldur sagðist hann sáttur við árangur mótmælanna til þessa. Hann veit sem er að Ísraelsmenn myndu svara slíkum árásum af fullri hörku og reyna að ganga á milli bols og höfuðs á Hamas. Því mega samtökin hreinlega ekki við á þessari stundu, enda valdajafnvægið viðkvæmt í Palestínu.


Tengdar fréttir

Rannsakað af stríðsglæpadómstólnum

Um tólf þúsund hafa særst í mótmælum á Gazaströndinni frá marslokum. Öryggisráðið fundaði í gær vegna mannfallsins á sunnudag. Aðalsaksóknari stríðsglæpadómstólsins fylgist náið með málum.

Spennustigið hátt í Jerúsalem

Búist er við áframhaldandi mótmælum í Jerúsalem í dag, daginn eftir að 55 Palestínumenn létu lífið í átökum við ísraelska hermenn.

Vill að Ísland fordæmi blóðbaðið í Palestínu

Búist er við enn frekari mótmælum í Palestínu í dag, réttum sjötíu árum eftir stofnun Ísraelsríkis og degi eftir að Ísraelsmenn skutu tæplega sextíu mótmælendur til bana. Formaður Samfylkingarinnar segir að Íslendingar eigi að senda skýr skilaboð um að morðin séu ólíðandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×