Innlent

Nítján settir varadómarar við Hæstarétt til að minnka staflann

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigríður Andersen féllst á tillögu Hæstaréttar um varadómara.
Sigríður Andersen féllst á tillögu Hæstaréttar um varadómara. fréttablaðið/stefán
Nítján einstaklingar hafa verið settir varadómarar við Hæstarétt. Dómsmálaráðherra féllst á tillögu Hæstaréttar þess efnis 29. janúar síðastliðinn.

Skömmu fyrir áramót voru samþykktar breytingar á dómstólalögum þess efnis að tímabundið væri heimilt að setja varadómara án þess að vanaleg skilyrði þess væru uppfyllt. Er það gert til að vinna á uppsöfnuðum einkamálum sem bíða úrlausnar en þau voru um 260 þegar Landsréttur tók til starfa. Stefnt er að því að meðferð þeirra verði lokið í upphafi árs 2019. Hefði ekki orðið af setningu varadómaranna var viðbúið að þeim hefði ekki lokið fyrr en á haustmánuðum næsta árs.

Fimm fyrrverandi hæstaréttardómarar eru á listanum en það eru Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. Þá eru þar sex héraðsdómarar, Arngrímur Ísberg, Ásgeir Magnússon, Eggert Óskarsson, Hildur Briem, Hólmfríður Grímsdóttir, Ingimundur Einarsson og Símon Sigvaldason. Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Sigurður Tómas Magnússon eru einnig á listanum.

Til viðbótar eru á listanum prófessorarnir Aðalheiður Jóhannsdóttir og Eyvindur G. Gunnarsson, Ása Ólafsdóttir dósent, Skarphéðinn Þórisson, fyrrverandi ríkislögmaður, og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari.

Einstaklingunum nítján hefur nú þegar verið úthlutað málum og tók hluti þeirra sæti í málum í gær.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×