Sætaskipti urðu því í einvíginu þar sem Dagur vann fyrri umferðina með miklum yfirburðum. Dagur fékk 20.183 stig frá dómurum keppninnar, sem voru sjö talsins, og Ari 17.453 atkvæði. Frá áhorfendum fékk Dagur 24.547 atkvæði í fyrri umferðinni en Ari 18.408 atkvæði.
Samkvæmt upplýsingum frá RÚV var heildarfjöldi greiddra og gildra atkvæða á lokakvöldinu 176.029. Hvert atkvæði kostaði 129 krónur sem þýðir að samtals eyddu áhorfendur 22,7 milljónum í atkvæði síðastliðið laugardagskvöld.
Lag Ara, sem samið er af Þórunni Ernu Clausen, verður því framlag Íslands í Eurovision-keppninni í ár sem fram fer í Lissabon í maí.
Sjá einnig: Engin sjáanleg vandamál í símakosningunni
Ari mun stíga á svið og flytja lagið í fyrri undankeppninni þriðjudaginn 8. maí. Seinni undankeppnin verður fimmtudaginn 10. maí en úrslitin fara fram laugardaginn 12. maí.
Árið 2015 mættust Friðrik Dór, með lagið Once Again, og María Ólafsdóttir, með lagið Unbroken, í einvíginu. Friðrik Dór fékk 21.834 atkvæði í fyrri símakosningunni en María 21.437 atkvæði. Friðrik var í fyrsta sæti hjá dómnefndinni en María 4. sæti hjá dómnefndinni. Það kom Maríu í einvígið við Friðrik Dór þar sem hún hlaut 49.337 atkvæði í símakosningunni en Friðrik Dór 34.016 atkvæði.
Árið 2016 var Alda Dís efst eftir fyrri umferð en hún flutti lagið Now. Hún fékk 11.847 atkvæði úr símakosningunni og 11.050 atkvæði frá dómnefndinni. Greta Salóme, með lagið Hear them calling, var í 3. sæti hjá dómnefndinni með 9.100 stig og 2. sæti í símakosningunni með 11.769 atkvæði. Í einvíginu fékk Greta hins vegar 39.807 atkvæði en Alda Dís 25.111 atkvæði.
Í fyrra var Svala Björgvinsdóttir, með lagið Paper efst eftir fyrri símakosninguna með 45.258 atkvæði gegn þeim 25.195 atkvæðum sem Daði Freyr Ragnarsson fékk með lagið Is This Love? Svala sigraði einvígið með afgerandi hætti með um 82 þúsund atkvæðum gegn 48 þúsund atkvæðum Daða.