Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vilja 59 prósent þeirra sem afstöðu tóku hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, 30 prósent vilja ekki hafa hann þar en 11 prósent eru hlutlaus í afstöðu sinni.
Þegar svörin eru skoðuð í heild kemur fram að 54 prósent vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, 28 prósent vilja ekki hafa hann þar áfram, 10 prósent eru hlutlaus, 4 prósent hafa ekki gert upp hug sinn og þrjú prósent neita að svara spurningunni.
Þegar svörin eru greind eftir aldri sést að fólk í aldurshópnum 50 ára og eldri er líklegra til að vilja hafa völlinn áfram í Vatnsmýrinni en þeir sem eru á aldrinum 18-49 ára. Þá vekur það líka athygli að konur eru líklegri til að vilja hafa völlinn áfram í Vatnsmýrinni en karlar.
Hörður segir að hver nefndin hafi verið skipuð á eftir annarri til að kanna hvar Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera.
„Það hefur verið Rögnunefndin og fleiri nefndir og alltaf er borgarstjóri leiddur til hásætis í nefndinni. Hann hefur nú yfirleitt bara eyðilagt þessar nefndir af því að það hafa aldrei komið nein skýr svör,“ segir Hörður.
Flugfélagið Ernir flýgur til sex staða á landsbyggðinni. „Fjölmörg fyrirtæki eru að þjónusta landsbyggðina og landsbyggðin er að sækja til Reykjavíkur þannig að þetta er svona „win win“ fyrir báða aðila að hafa flugvöllinn og samgöngur í lagi,“ segir Hörður og ítrekar að sér finnist umræða um flugvöll í Hvassahrauni algerlega út í hött. „Þessi umræða er bara ekki alveg í lagi og ég veit eiginlega ekkert hvernig hún verður til.“
Aðferð
Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.322 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. febrúar. Svarhlutfallið var 60,5 prósent.Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri.
Spurt var: Viltu hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni? 93 prósent þeirra sem svöruðu tóku afstöðu til spurningarinnar.