Viðskipti innlent

Bjarni segir verð fyrir hlut í Arion banka fela í sér viðunandi ávöxtun

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að 23,4 milljarðar króna fyrir 13 prósenta hlut ríkisins í Arion banka sé viðunandi ávöxtun á því fé sem ríkið setti inn í bankann við fjármögnun hans árið 2009. Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, hefur virkjað kauprétt á hlutnum og fundaði ráðherranefnd um efnahagsmál um málið síðdegis í dag.

Bankasýslu ríkisins, sem heldur á 13 prósenta hlut ríkisins í Arion banka, barst erindið í gær en það felur í sér að Kaupskil greiða 23,4 milljarða fyrir hlut ríkisins. Kveðið er á um kaupréttinn í hluthafasamkomulagi um fjármögnun Arion banka frá 3. september 2009. Gangi viðskiptin eftir mun Arion banki í kjölfarið kaupa 9,5 prósent af eigin bréfum af Kaupskilum.

Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka segir að þau bréf sem Arion banki muni kaupa séu í reynd þau sömu og Kaupskil áætlar að kaupa af ríkissjóði samkvæmt kauprétti. Verðið í viðskiptunum verði það sama eða 90,087 krónur á hlut. 

„Þeir eru að bjóða bankanum að kaupa bréf sem þeir eiga ekki en eru að eignast. Þetta er allt hluti af endurskipulagningu á eignarhaldi sem var óeðlilegt og staðið hefur til að endurskipuleggja í langan tíma,“ segir Höskuldur. 

Niðurstaða mun liggja fyrir á næstu dögum

Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins fundaði vegna málsins í dag en í nefndinni sitja Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

„Bankasýslan mun senda mér tillögu um hvernig skuli bregðast við. Ég á svo sem ekki von á því að það séu mörg útafstandandi álitamál. Ekki miðað við það sem fram kom á fundi okkar í dag. En það er fyrst í framhaldi af því að ég hef fengið tillöguna sem formlega er hægt að segja að við tökum afstöðu til þessarar kröfu um að beita kaupréttinum,“ segir Bjarni Benediktsson. Hann segir verðið viðunandi enda lagði ríkissjóður rétt tæpa 10 milljarða króna inn í Arion banka við fjármögnun bankans á sínum tíma. 

„Það eru auðvitað margar leiðir til að horfa á það en ef við skoðum bara hvaða ávöxtun ríkið er að hafa, miðað við þetta kaupréttarverð, á eiginfjárframlag sitt frá 2009 þá tel ég að ríkið geti mjög vel við unað að fá 23,4 milljarða króna fyrir framlag sem á sínum tíma náði ekki tíu milljörðum króna. Það er töluvert góð ávöxtun en það verða fleiri sjónarhorn að koma inn í myndina þegar metið er hvort verðið sé gott,“ segir Bjarni. Hann segir að málið sé ekki flókið formlega séð og því gæti niðurstaða um hvort hluturinn verði seldur til Kaupskila legið fyrir innan nokkurra daga. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×