Innlent

Sýslumenn andvígir því að færa innheimtu til Ríkisskattstjóra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ríkisskattstjóri á að sjá um innheimtu á höfuðborgarsvæðinu.
Ríkisskattstjóri á að sjá um innheimtu á höfuðborgarsvæðinu. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Sýslumannafélag Íslands (SFÍ) furðar sig á fyrirhugaðri breytingu á tekjuskattslögum sem felur í sér að innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu verði flutt frá Tollstjóra til Ríkisskattstjóra (RSK).

Drög að frumvarpi þess efnis voru kynnt í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar á dögunum. Í umsögn frá SFÍ er lýst yfir furðu á því að nefnd um aukna skilvirkni í skattframkvæmd hafi ekki haft samráð við innheimtumenn ríkissjóðs í héraði við störf sín.

„Í skipulagsbreytingum, sem átt hafa sér stað síðari ár hjá hinu opinbera, hefur þess jafnan verið gætt að þær séu ekki til þess fallnar að stuðla að aukinni áhættu, m.t.t. vanhæfissjónarmiða og óheppilegrar samtvinnunar,“ segir í umsögn SFÍ. Er þar meðal annars vísað til aðskilnaðar dóms- og framkvæmdavalds, aðgreiningar lögregluvalds og fullnustu. Í frumvarpsdrögunum virðist því kveða við nýjan tón þar sem álagning, eftirlit og innheimta verði allt á sömu hendi hvað höfuðborgarsvæðið varðar.

„Höfundar frumvarpsdraganna telja álagningu og innheimtu opinberra gjalda verða einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari með því að fela RSK innheimtuna. Ekki kemur þó fram í hverju nákvæmlega sparnaðurinn eða annar ávinningur felst, enda gert ráð fyrir óbreyttum fjölda starfsmanna og sömu húsnæðisþörf og verið hefur,“ segir í umsögninni.

SFÍ telur það frekar stuðla að hagkvæmni og skilvirkni að innheimtuaðili sé ekki sá sami og leggur gjaldið á. Vísað er þar meðal annars til Danmerkur en þar hefur verið horfið frá því að hafa eina miðlæga stofnun vegna innheimtu skatta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×