Breytingarnar fóru öfugt ofan í notendur Skype sem kvörtuðu sáran yfir því að grunnnotkun forritsins, eins og símhringingar og skilaboðasendingar, varð flóknari en áður. „Það var óþarfi að breyta einhverju sem var ekki bilað,“ eins og haft er eftir einum pirruðum notanda á vef breska ríkisútvarpsins.
Reiði notendanna varð meðal annars til þess að einkunn forritsins í smáforritsveitum á borð við App Store og Google Play lækkaði mikið - fór úr 4 stjörnum að meðaltali niður í tæplega 2.
Microsoft hefur nú ákveðið að bregðast við gagnrýninni og að sögn Peter Skillman, yfirhönnuðar Skype, verður forritið einfaldað og margar „Snapchat-legar“ breytingar dregnar til baka. Áherslan verði framvegis á símhringingar og skilaboð, sem hafa frá upphafi verið aðalsmerki Skype.
Forritið leit dagsins ljós árið 2003 en Microsoft festi kaup á því árið 2011. Það hefur átt í vök að verjast eftir að fleiri samskiptaforrit, á borð við Facebook Messenger og WhatsApp, fóru að bjóða upp á sambærilega þjónustu og Skype.
Samskiptaforrit eru gjörn á að herma eftir eiginleikum hvers annars. Sem dæmi má nefna að Instragram, Messenger og Skype hafa öll tekið upp „stories“-eiginleika, sem Snapchat kynnti fyrst til sögunnar.
Hér að neðan má sjá myndband sem BBC tók saman um óánægju Skype-notenda.