Erlent

Mueller ákærir lögmann fyrir lygar

Samúel Karl Ólason skrifar
Rannsakendur segja málið tengjast Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donald Trump, sem hefur einnig verið ákærður af Mueller.
Rannsakendur segja málið tengjast Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donald Trump, sem hefur einnig verið ákærður af Mueller. Vísir/AP
Lögmaðurinn Alex Van der Zwaan hefur verið ákærður af Robert Mueller, sérstökum saksóknara Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, fyrir að segja starfsmönnum Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, ósatt. Hann á að hafa logið um samskipti sín við Rick Gates, fyrrverandi starfsmann forsetaframboðs Donald Trump, og um vinnu hans fyrir Dómsmálaráðyneyti Úkraínu árið 2012.

Sú vinna sneri að réttarhöldum yfir fyrrverandi forsætisráðherranum Yulia Tymoshenko. Hún var fangelsuð að skipan Viktor Yanukovych, fyrrverandi forseta Úkraínu.

Van der Zwaan er tengdasonur rússneska auðjöfursins German Khan og segja rannsakendur Mueller að málið tengist Paul Manafort, sem var um tíma kosningastjóri Trump og var ráðgjafi Yanukovych. Búist er við því að Van der Zwaan komi fyrir dómara í dag og játi brotið.

Rick Gates starfaði lengi fyrir Manafort og er sagður hafa játað á sig fjársvikabrot og ætla að bera vitni gegn Manafort.

Samkvæmt ákærunni er Van der Zwaan sakaður um að hafa logið um samskipti sín við Gates og annan ónefndarn mann. Þá á hann einnig að hafa logið því að hann vissi ekki af hverju tölvupóstur frá september 2016 á milli hans og ónefnda mannsins hefði ekki borist til rannsakenda. Því er haldið fram að hann hefði eytt fjölda tölvupósta sem rannsakendur fóru fram á.


Tengdar fréttir

Trump ræðst á alla nema Rússa

Í fjölda tísta sem sneru að mestu að Rússarannsókninni svokölluðu og innihéldu margar villur var þó einn aðili sem slapp við alla gagnrýni. Vladimir Putin, forseti Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×