Á bænum Selási hafa þau Ingvar Guðmundsson, húsasmíðameistari og Jóhann Þorbjörg Magnúsdóttir, hundaþjálfari og lögreglukona opnað glæsilega einangrunarstöð fyrir hunda og ketti. Í henni er pláss fyrir 16 hunda í sérstökum herbergjum með aðgang að útisvæði.
„Okkur langaði að byggja upp aðstöðu byggða upp á hugmyndafræði Jóhönnu um það hvernig hundur getur eignast eins þægilegt líf og völ er á, jafnvel þótt hann sé í einangrun“, segir Ingvar.
Öll aðstaða á Móseli er til fyrirmyndar.
„Já, takk fyrir það, við reyndum bara að gera okkar allra besta. Okkar markmið er að hundunum líði eins og heima hjá sér. Þeir eru með flatskjá og sérstakt hundasjónvarp sem þeir geta horft á. Það er boðið upp á þjálfun á meðan dvöl stendur, það er bara mismunandi eftir því hvernig hund þú ert að flytja inn til landsins hvað hann þarf mikla þjálfun, þannig að hér eiga allir að finna eitthvað við sitt hæfi“, segir Jóhanna.
En hvað fá hundarnir að sjá í sjónvarpinu ?

Hundarnir geta líka haldið sér í formi með því að fara á hlaupabretti.
„Þeir fá hreyfingu og andlega örvun og allt sem þeir þurfa til að lifa eðlilegu lífi“, segir Jóhanna og bætir við að kettirnir á stöðinni fái risa stóra svítu þar sem þeir geta leikið sér með allskonar bæli og svo fá þeir að sjálfsögðu líka sjónvarp“, segir Jóhanna.
Nú þegar er uppbókað í nýju stöðina fram í marsmánuð á næsta ári vegna mikillar aðsóknar en 16 hundar eru teknir inn í einu og þurfa þeir að vera 28 daga í einangrun á stöðinni. Einn köttur getur verið á stöðinni í einu eins og staðan er í dag, en stefnt er á að þeir geti orðið þrír í framtíðinni.