Sport

Guðbjörg Jóna: Var nóg að komast í úrslit og ætlaði bara að njóta

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð um helgina Evrópumeistari 18 ára og yngri í 100 metra hlaupi. Hún náði einnig í bronsverðlaun í 200 metra hlaupi.

„Þegar ég fór í 100 metra hlaupið þá var ég skælbrosandi þegar ég fór í blokkina því ég ætlaði bara að njóta þess að vera þarna. Að komast í úrslit, það var bara nóg út af fyrir sig,“ sagði Guðbjörg Jóna við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Ég fann þegar ég kom í mark að ég lenti á palli og var bara geðveikt ánægð. Svo var kamerumaðurinn alltaf á mér og ég hugsaði, vann ég? Svo kom hann og sagði mér að ég hafði unnið og ég var svo hissa að ég fór bara að gráta.“

Guðbjörg Jóna á framtíðina fyrir sér í spretthlaupum en hún segir þennan titil þó hafa litla þýðingu haldi hún ekki áfram að æfa, unglingatitlar þýði ekki mikið á fullorðinsárum.

„Þetta breytir engu þannig séð, maður þarf að halda áfram. Það eru margir sem hætta á þessum aldri. Það skiptir engu máli þótt maður hafi orðið Evrópumeistari 18 ára þegar þú ert kominn á fullorðinsmót, en þetta er gaman núna,“ sagði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.



Viðtal Júlíönu við Guðbjörgu má sjá í heild sinni í sjónvarpsglugganum í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×