Innlent

Gasleki líklega orsök eldsins í Hellisheiðarvirkjun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tjón vegna brunans var á afmörkuðu svæði innan virkjunarinnar.
Tjón vegna brunans var á afmörkuðu svæði innan virkjunarinnar. Vísir/Vilhelm
Niðurstöður rannsóknar á upptökum elds sem upp kom í Hellisheiðarvirkjun í vetur liggja nú fyrir. Líklegast er að kviknað hafi í út frá eldfimu jarðhitagasi sem lekið hafði úr gaslögn og neisti, mögulega vegna stöðurafmagns, komið brunanum af stað.

Þetta er niðurstaða Mannvirkjastofnunnar og lögreglu en í tilkynningu frá Orku náttúrunnar segir að þetta sé í samræmi við mat fyrirtækisins. Gripið hafi verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir slíkan gasleka.

„Þær fela meðal annars í sér að gaslagnir sem um ræðir hafa verið aftengdar og verið er að fara yfir hönnun og frágang þeirra hluta virkjana fyrirtækisins þar sem aðstæður eru svipaðar. Þá mun ON upplýsa önnur jarðhitafyrirtæki um þessar niðurstöður til að fleiri geti lært af,“ segir í tilkynningunni.

Eldurinn kviknaði laust fyrir hádegi 12. janúar síðastliðinn. Í tilkynningunni segir að tjón vegna eldsins hafi einkum verið á hluta þaks stöðvarhússins en áhrif á orkuvinnslu voru lítil.

„ON er tryggt fyrir tjóninu en sjálfsábyrgð tryggingarinnar nemur sem svarar til 100 milljóna króna. Viðgerðum er ekki að fullu lokið og tjónið ekki verið gert upp.“


Tengdar fréttir

Slökkvistarfi lokið á Hellisheiði

Slökkvistarfi er nú lokið á Hellisheiði en eldur kom upp í loftræstibúnaði Hellisheiðarvirkjunar laust fyrir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×