Erlent

Sautján látnir eftir sprengingar í Mogadishu

Atli Ísleifsson skrifar
Enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/SAID YUSUF WARSAME
Sautján manns hið minnsta eru látnir eftir að tvær sprengingar urðu í sómölsku höfuðborginni Mogadishu í dag. Reuters  greinir frá því að um sjálfsvígssprengjuárás hafi verið að ræða.

Svo virðist sem að tvær sprengjur hafi sprungið nærri hóteli í miðborginni, en þeim var komið fyrir í bílum. Lögregla og öryggisverðir skutu úr byssum sínum eftir að sprengjurnar sprungu.

„Staðfest er að að minnsta kosti sautján manns eru látnir,“ segir lögregla. „Fjöldi látinna kemur örugglega til með að hækka.“

Sjónarvottar segir að þriðja sprengjan hafi svo sprungið við sömu götu um tuttugu mínútum eftir þeim fyrstu.

Enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en hryðjuverkahópurinn al-Shabaab hefur reglulega staðið fyrir árásum sem beinast gegn sómölskum stjórnvöldum sem og óbreyttum borgunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×