Utanríkisráðuneytið og þar til bærar stofnanir munu gefa út flýtiáritun fyrir bróður og fjóra aðra ættingja mannanna tveggja sem voru í umferðarslysinu við Núpsvötn í gær.
Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins í samtali við Vísi, en fyrst var greint frá málinu á vef RÚV.
Ættingjarnir fimm koma frá Indlandi og vanalega tekur það nokkurn tíma að fá áritun hingað til lands. Sótt er um áritunina í Indlandi en í tilfelli bróðurins og hinna ættingjanna munu þau fá vegabréfsáritun við komuna til Íslands.
„Út af því hvernig málið er vaxið þá verður gata þeirra greidd eins og frekast er kostur og þeim veitt áritun þegar þau koma hingað til lands,“ segir Sveinn.
Auk ættingjanna frá Indlandi þá hröðuðu vinir og ættingjar fólksins frá Bretlandi sér hingað til lands í kjölfar slyssins.
Bræðurnir tveir slösuðust alvarlega og eiginkonur þeirra létu báðar lífið auk ellefu mánaða gamallar dóttur annars mannsins. Þá slösuðust einnig tvö börn alvarlega en þau eru sjö og níu ára gömul.
Gefa út flýtiáritun fyrir ættingja sem koma frá Indlandi

Tengdar fréttir

Bróðir mannanna frávita af sorg
Segir litla frænku sína hafa farist í slysinu.

Stúlkan sem lést ekki orðin eins árs
Tilkynning frá lögreglunni á Suðurlandi vegna banaslyssins við Núpsvötn.