Skoðun

Þrástagað

Jón Sigurðsson skrifar
Við og við er olíumálið gamla rifjað upp í fjölmiðlum, síðast í Fréttablaðinu föstudaginn 12. október sl. Það er þá gert til þess að ófrægja minningu látins heiðursmanns, Vilhjálms Þór utanríkisráðherra, forstjóra og seðlabankastjóra. Því er rétt að rifja það líka upp að þáttur Vilhjálms í þessu víðtæka fjársvikamáli var mjög lítill og takmarkaður og snerti eiginhagsmuni Vilhjálms sjálfs ekki.

Því miður er því treyst að málsatvik séu gleymd og enginn nenni að andæfa rangindum um þetta. Vilhjálmur Þór bar sem stjórnarformaður formlega ábyrgð á einni ákvörðun um gjaldeyrislán milli fyrirtækja og deilda í Olíufélaginu hf. og Samb. ísl. samvinnufélaga en skylt var að leita og fá heimild hjá stjórnvöldum skv. þágildandi haftalögum. Alsiða var að slíkrar heimildar væri leitað eftir á, sum fyrirtæki tvisvar á ári, önnur oftar eða árlega.

Ekki var leitað heimildar fyrir þessari ákvörðun. Lýsti dómarinn undrun yfir því enda auðsótt mál. En skömmu síðar hafði Vilhjálmur horfið af vettvangi til annarra starfa. Hann fylgdist því ekki með afdrifum málsins og treysti á að aðrir ábyrgir starfsmenn lykju málinu með lögmæltum hætti. Vilhjálmur vissi ekki af þessu broti fyrr en málarekstur hófst.

Um var að ræða reglur um skilaskyldu gjaldeyris. Við brotinu lá einföld fjársekt og var það fyrnt skv. almennum reglum þegar málið kom til dóms. Löngu er tími til kominn að hætta að þrástaga um þetta og löngu komið mál að ásökunum og söguburði linni um þetta.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×