Erlent

Að minnsta kosti fimm sagðir látnir eftir skotárásina

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregla hafði mikinn viðbúnað í kringum skrifstofur Capital Gazette eftir að tilkynning barst um árásina.
Lögregla hafði mikinn viðbúnað í kringum skrifstofur Capital Gazette eftir að tilkynning barst um árásina. Vísir/AP
Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að vopnaður maður hafi skotið nokkra til bana fyrir utan ritstjórnarskrifstofu dagblaðs í borginni Annapolis í Maryland-ríki. Byssumaðurinn hafi verið tekinn höndum. Reuters-fréttastofan segir að fimm manns að minnsta kosti séu látnir og nokkrir aðrir séu særðir.

Ekki liggur fyrir hvað árásarmanninum gekk til, að sögn lögreglu í Anne Arundel-sýslu. Verið er að yfirheyra manninn. Reuters hefur eftir CBS-sjónvarpsstöðinni að árásarmaðurinn sé á þrítugsaldri og hann hafi verið skilríkjalaus. Hann hafi notað haglabyssu við árásina.

Annapolis er höfuðborg Maryland-ríkis, um fimmtíu kílómetrum austan við Washington-borg. Capital Gazette er í eigu dagblaðsins Baltimore Sun. Reuters-fréttastofan segir að skrifstofur Baltimore Sun hafi einnig verið rýmdar í öryggisskyni. Enn sem komið er telji lögreglan að um staðbundið atvik sé að ræða sem tengist ekki hryðjuverkum.

Lögreglan í New York jók öryggisgæslu við fjölmiðla þar í borg í öryggisskyni eftir árásina sömuleiðis.

Blaðamaður Capital Gazette sagði á Twitter að byssumaðurinn hafi skotið í gegnum glerhurð á skrifstofunni og skotið á nokkra starfsmenn. Útlitið væri slæmt.

AP-fréttastofan segir að Donald Trump forseti hafi fengið upplýsingar um árásina. Talskona Hvíta hússins sagði fréttamönnum að þeir sem urðu fyrir árásinni væru í hugsunum og bænum Hvíta hússins. Trump hefur verið harðlega gagnrýninn á fjölmiðla allt frá því að hann bauð sig fyrst fram. Hann hefur ítrekað lýst fjölmiðlum sem óvinum bandarísku þjóðarinnar.

Trump tísti um árásina í kvöld þar sem hann endurtók að fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra væru í hugsunum hans og bænum. Þakkaði hann viðbragðsaðilum sem væru enn á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×