Viðskipti innlent

Fallið frá kaupum Icelandair Group á WOW Air

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekkert verður af kaupum Icelandair á WOW.
Ekkert verður af kaupum Icelandair á WOW. VÍSIR/VILHELM
Fallið hefur verið frá kaupum Icelandair Group á Wow air en kaupsamningur var undirritaður þann 5. nóvember síðastliðinn. Þetta er sameiginleg niðurstaða beggja aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. 

Greint var frá því fyrr í vikunni að ljóst væri að ólíklegt mætti teljast að allir fyrirvarar í kaupsamningi um kaup félagsins á WOW yrðu uppfylltir fyrir hluthafafund Icelandair, sem fram fer á morgun. Í tilkynningu Icelandair segir að staðan sé óbreytt hvað þetta varðar. „Því er ólíklegt að stjórn Icelandair Group geti mælt með því við hluthafa félagsins að þeir samþykki kaupsamninginn. Þá hefur stjórn ekki í hyggju að leggja til við hluthafafund tillögu um að fresta ákvarðanatöku um kaupsamninginn.“



Sjá einnig: Skúli segist reikna með gleðifréttum í mjög náinni framtíð

Í ljósi þessarar stöðu sé það því sameiginleg niðurstaða beggja aðila að falla frá fyrrnefndum kaupsamningi. Auk þess að fá samþykki hluthafafundar Icelandair og Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu í áreiðanleikakönnun hefðu forsvarsmenn flugfélaganna þurft að leita lausna í hinum ýmsu deilumálum sem enn stóðu út af, áður endanlega var ákveðið að falla frá kaupunum. Skuldabréfaeigendur WOW air hefðu jafnvel þurft að samþykkja tugprósenta afskriftir af höfuðstól sínum hefðu kaupin átt að ganga eftir.

WOW Air hefur boðað til starfsmannafundar í höfuðstöðvum flugfélagsins í Borgartúni klukkan 10. Þar má ætla að næstu skref - og um leið framtíð félagsins - verði rædd.

Skúli Mogensen býst við góðum fréttum af framtíð WOW á næstunni.Fréttablaðið/Anton
Bogi Nils Bogason,  starfandi forstjóri Icelandair Group, segir í tilkynningunni að ljóst sé að kaupin muni ekki ganga eftir. „Stjórn og stjórnendur beggja félaga hafa unnið að þessu verkefni af heilum hug. Niðurstaðan er vissulega vonbrigði. Stjórnendum WOW air færi ég þakkir fyrir mjög gott samstarf í þessu verkefni síðustu vikur.  Jafnframt óskum við eigendum og starfsfólki félagsins alls hins besta,“ segir Bogi.

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW Air, segir í sömu tillkynningu að það hafi verið ljóst strax í upphafi að það hafi verið „metnaðarfullt verkefni“ að klára alla fyrirvara við kaupsamninginn á svo skömmum tíma. „Við þökkum stjórnendum Icelandair Group fyrir samstarfið í þessu krefjandi verkefni og óskum sömuleiðis stjórnendum og starfsfólki Icelandair Group alls hins besta.“

Sjá einnig: Þurfi að taka á sig tugprósenta afskriftir

Í bréfi sem Skúli sendi á skuldabréfaeigendur í félaginu kom fram að staða WOW væri verri en áður hafði verið talið. Margvíslegir þættir byggju þar að baki; til að mynda óvægin umræða um fjárhagsstöðu félagsins og gjaldþrot Primera Air. Þá ákvað flugfélagið að fækka um fjórar þotur í flota sínum fyrr í þessari viku. 

Að sama skapi kom fram í vikunni að „vaxandi óþreyju“ gæti meðal eigenda flugvéla sem eru í rekstri WOW air. Óttast leigusalarnir, sem eru aðallega félög sem sérhæfa sig í fjármögnun og útleigu flugvéla, að samruni flugfélagsins og Icelandair gangi ekki eftir og að WOW air takist ekki að standa í skilum um næstu mánaðamót með greiðslu afborgana. Fjármálastjóri WOW tók þó af allan vafa í gær með launagreiðslur til starfsmanna. Þær verði „að sjálfsögðu“ greiddar út á morgun. 


Tengdar fréttir

Óþreyju gætir meðal leigusala WOW air

Mörg mál standa enn út af í viðræðum Icelandair og WOW air. Stjórnendur Ice­landair vilja ekki að flugmenn WOW air verði á sama kjarasamningi og flugmenn Icelandair. Vaxandi óþreyju gætir á meðal eigenda flugvéla í rekstri WOW air.

Skúli segist reikna með gleðifréttum í mjög náinni framtíð

Skúli Mogensen segir að það sé ekkert launungarmál að hans helsta markmið sé að WOW air verði áfram sjálfstætt flugfélag. Unnið sé að því og hann reikni með að geta fært starfsfólki WOW air gleðifréttir í mög náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×