Enski boltinn

„Í einhverju öðru landi fengi Arsenal heimaleikjabann fyrir svona“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dele Alli sýnir hver sé staðan eftir að hafa fengið flösku í sig.
Dele Alli sýnir hver sé staðan eftir að hafa fengið flösku í sig. Vísir/Getty
Lundúnalögreglan hefur hafið rannsókn eftir að flösku var hent í enskan landsliðsmann í liði Tottenham á Emirates leikvanginum í gærkvöldi en atvikið varð í leik nágrannanna Tottenham og Arsenal í enska deildabikarnum. Tottenham vann leikinn 2-0 og komst í undanúrslit keppninnar.

Dele Alli, leikmaður Tottenham, lenti í því að fá plastflösku í hausinn í leiknum. Flaskan kom úr hópi áhorfenda.

Lögreglan vinnur nú með fólki hjá Arsenal til að komast að því hver hafi hent flöskunni í Dele Alli.

Atvikið varð á 73. mínútu leiksins þegar Dele Alli var að taka innkast við hliðarlínuna. Dele Alli brást við með því að sýna áhorfendum hver staðan var í leiknum en hún var þá orðin 2-0 fyrir Tottenham liðið.

„Í einhverju öðru landi myndu þeir kannski loka leikvanginum í nokkra leiki,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham um atvikið eftir leikinn. Það eru þó ekki miklar líkur á því að Arsenal verði dæmt í heimaleikjabann.





„Við erum heppin að þetta er ekki mikið vandamál en fólk þarf að passa sig. Við verðum að forðast svona atvik en sumt fólk hegðar sér mjög illa,“ sagði Pochettino.

Dele Alli hafði áður skorað seinna mark Tottenham og komið sínu liði í frábær mál.

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem kemur upp svona mál í leikjum liðanna tveggja. Í deildarleik liðanna á sama velli fyrr í þessum mánuði var bananahýði hent í átt að Pierre-Emerick Aubameyang, framherja Arsenal.

Stuðningsmaður Tottenham sem henti bananahýðinu fékk fjögurra ára bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×