Eldvörp tíma og tilvistar Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir skrifar 20. desember 2018 08:30 Heklugjá er eftir Ófeig Sigurðsson „... í dag þykir ættfræði púkaleg, jafnvel hættuleg, vafasamt að vita undan hvaða hrauni blóðið sprettur, þekkja upptökin og lindirnar, hvern hyl og allar þær bugður, krakkar í dag vita varla hvað afi þeirra og amma heita ... grafin í rafsand síma, sökkvandi í heima dökkva,“ segir sögumaðurinn í bókinni Heklugjá, leiðarvísir að eldinum (s. 187). Þessi fimmta skáldsaga Ófeigs Sigurðssonar (f. 1975) er á sinn hátt upprunaleit – nokkurs konar ættfræði. Saga Oddaverja í nýjum búningi, vafin í flæðandi skáldmælgi. Sögumaðurinn, sem kveðst heita Ófeigur og gæti því verið höfundurinn sjálfur, hefur tekið sér fyrir hendur að kafa ofan í dagbækur og gögn um lífskúnstnerinn Dunganon. Heimildagrúskið rekur hann vítt um lendur hugar og heims, sogar hann gegnum rás tímans aftur í öróf alda og um tilverustig „víddarinnar“ þaðan sem sögupersónur taka til máls og horfa yfir sviðið. Mann fram af manni verða forfeðurnir hugfangnir af rauðhærðum stúlkum með sægræn augu, líkt og sjálfur sögumaðurinn. Stúlkan hans heitir Hekla, eins og eldfjallið sem einnig kemur við sögu og er örlagavaldur í lífi þjóðar – táknmynd landsins, þjóðarsálarinnar, sögunnar, frumraka tilverunnar. Ástir, ævintýri og ferðir unga fólksins um framandi menningarslóðir, verða fljótlega rannsóknarefninu yfirsterkari, eins og vænta má. Milli þeirra gýs upp annar eldur, en eins og allir vita er eldurinn afl sem bæði skapar og eyðir. Ófeigur hefur fengist við ljóðagerð, skáldsögur og þýðingar frá því hans fyrsta bók kom út 2001. Hann sló eftirminnilega í gegn með bókinni Öræfi sem varð metsölubók 2014 og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið eftir. Eins og í fyrri bókum Ófeigs einkennist stíll Heklugjár af hugflæði. Setningar geta orðið ógnarlangar, líkt og fléttur þar sem ein hugsun leiðir af annarri og hrynjandi málsins verður að einhverskonar öldu sem fær að rísa og hníga, allt að því á eigin forsendum. Þetta seiðandi frásagnarflæði helst út alla bókina, en öldugangurinn er misjafn. Stundum háttbundinn og rór. Stundum löðrandi brim. Athygli lesandans kastast milli gjörólíkra sögusviða um leið og slegið er á velflesta strengi hughrifa. Inni á milli sögulegra útlegginga – oft bráðfyndinna – bólar á kunnuglegum þjóðsagnaminnum þar sem heimar mætast og sálir eiga á hættu að glatast. Hér má til dæmis finna sterka samsvörun við Sæmund fróða, sem átti að hafa lært sín fræði í Svartaskóla, gleymt nafni sínu og kljáðst við Kölska. Sjálfur er sögumaður flæktur í myrkviði fornra fræða og á í höggi við ýmsa djöfla. Alteregóið hans – hundurinn Kolur (annað nafn Sæmundar fróða) – sjaldnast langt undan með kviðlinga á takteinum. Hringrás er orð sem kemur upp í hugann við lesturinn, því að leiðangurinn um fortíðarslóðirnar varpast á vissan hátt inn í nútíðina. Eldfjöll hafa spúið eimyrju yfir landslýð frá upphafi vega. Menn hafa elskað og hatað, látið eins og fífl, gert vanhugsaða hluti, steypt hver öðrum í glötun og gæfu, misst vitið, glaðst og grátið um aldir alda og munu áfram gera. Heklugjá er saga í mörgum lögum. Full af húmor og fróðleik sem fléttast saman í ólgandi frásagnarflæði sem brýst eins og hraunkvika upp úr djúpum sínum.Niðurstaða: Þessi saga er eins og eldgos. Stíllinn og efnistökin eru flæðandi hraunstraumur. Birtist í Fréttablaðinu Bókmenntir Menning Mest lesið Óvæntur glaðningur í veggjunum Lífið Frumsýning á Vísi: Hafa aldrei gengið eins langt og í Alheimsdraumnum Lífið Heitustu trendin árið 2025 Lífið Með þvottaklemmu á sér í beinni frá eldunum Lífið Bönnuð innan 12 af ástæðu Lífið Heimili Hanks rétt slapp Lífið Tíu góð andlitskrem í vetrarkuldann Lífið Glæsihús í Kópavogi með stórbrotnu útsýni Lífið Patrik í hálfrar milljón króna skíðagalla Tíska og hönnun Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Gagnrýni Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
„... í dag þykir ættfræði púkaleg, jafnvel hættuleg, vafasamt að vita undan hvaða hrauni blóðið sprettur, þekkja upptökin og lindirnar, hvern hyl og allar þær bugður, krakkar í dag vita varla hvað afi þeirra og amma heita ... grafin í rafsand síma, sökkvandi í heima dökkva,“ segir sögumaðurinn í bókinni Heklugjá, leiðarvísir að eldinum (s. 187). Þessi fimmta skáldsaga Ófeigs Sigurðssonar (f. 1975) er á sinn hátt upprunaleit – nokkurs konar ættfræði. Saga Oddaverja í nýjum búningi, vafin í flæðandi skáldmælgi. Sögumaðurinn, sem kveðst heita Ófeigur og gæti því verið höfundurinn sjálfur, hefur tekið sér fyrir hendur að kafa ofan í dagbækur og gögn um lífskúnstnerinn Dunganon. Heimildagrúskið rekur hann vítt um lendur hugar og heims, sogar hann gegnum rás tímans aftur í öróf alda og um tilverustig „víddarinnar“ þaðan sem sögupersónur taka til máls og horfa yfir sviðið. Mann fram af manni verða forfeðurnir hugfangnir af rauðhærðum stúlkum með sægræn augu, líkt og sjálfur sögumaðurinn. Stúlkan hans heitir Hekla, eins og eldfjallið sem einnig kemur við sögu og er örlagavaldur í lífi þjóðar – táknmynd landsins, þjóðarsálarinnar, sögunnar, frumraka tilverunnar. Ástir, ævintýri og ferðir unga fólksins um framandi menningarslóðir, verða fljótlega rannsóknarefninu yfirsterkari, eins og vænta má. Milli þeirra gýs upp annar eldur, en eins og allir vita er eldurinn afl sem bæði skapar og eyðir. Ófeigur hefur fengist við ljóðagerð, skáldsögur og þýðingar frá því hans fyrsta bók kom út 2001. Hann sló eftirminnilega í gegn með bókinni Öræfi sem varð metsölubók 2014 og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið eftir. Eins og í fyrri bókum Ófeigs einkennist stíll Heklugjár af hugflæði. Setningar geta orðið ógnarlangar, líkt og fléttur þar sem ein hugsun leiðir af annarri og hrynjandi málsins verður að einhverskonar öldu sem fær að rísa og hníga, allt að því á eigin forsendum. Þetta seiðandi frásagnarflæði helst út alla bókina, en öldugangurinn er misjafn. Stundum háttbundinn og rór. Stundum löðrandi brim. Athygli lesandans kastast milli gjörólíkra sögusviða um leið og slegið er á velflesta strengi hughrifa. Inni á milli sögulegra útlegginga – oft bráðfyndinna – bólar á kunnuglegum þjóðsagnaminnum þar sem heimar mætast og sálir eiga á hættu að glatast. Hér má til dæmis finna sterka samsvörun við Sæmund fróða, sem átti að hafa lært sín fræði í Svartaskóla, gleymt nafni sínu og kljáðst við Kölska. Sjálfur er sögumaður flæktur í myrkviði fornra fræða og á í höggi við ýmsa djöfla. Alteregóið hans – hundurinn Kolur (annað nafn Sæmundar fróða) – sjaldnast langt undan með kviðlinga á takteinum. Hringrás er orð sem kemur upp í hugann við lesturinn, því að leiðangurinn um fortíðarslóðirnar varpast á vissan hátt inn í nútíðina. Eldfjöll hafa spúið eimyrju yfir landslýð frá upphafi vega. Menn hafa elskað og hatað, látið eins og fífl, gert vanhugsaða hluti, steypt hver öðrum í glötun og gæfu, misst vitið, glaðst og grátið um aldir alda og munu áfram gera. Heklugjá er saga í mörgum lögum. Full af húmor og fróðleik sem fléttast saman í ólgandi frásagnarflæði sem brýst eins og hraunkvika upp úr djúpum sínum.Niðurstaða: Þessi saga er eins og eldgos. Stíllinn og efnistökin eru flæðandi hraunstraumur.
Birtist í Fréttablaðinu Bókmenntir Menning Mest lesið Óvæntur glaðningur í veggjunum Lífið Frumsýning á Vísi: Hafa aldrei gengið eins langt og í Alheimsdraumnum Lífið Heitustu trendin árið 2025 Lífið Með þvottaklemmu á sér í beinni frá eldunum Lífið Bönnuð innan 12 af ástæðu Lífið Heimili Hanks rétt slapp Lífið Tíu góð andlitskrem í vetrarkuldann Lífið Glæsihús í Kópavogi með stórbrotnu útsýni Lífið Patrik í hálfrar milljón króna skíðagalla Tíska og hönnun Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Gagnrýni Fleiri fréttir Kynferðislega ófullnægður forstjóri finnur sér ungan graðfola Nýársswing með handbremsu Getuleysi á stóra sviðinu Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira