Innlent

Hvasst og blautt á Austurlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Austurlandi
Frá Austurlandi Vísir/pjetur
Gular viðvaranir á austurhluta landsins setja svip á veðurkort Veðurstofunnar í dag. Gert er ráð fyrir talsverðri eða mikilli rigningu á Austfjörðum, Austurlandi að Glettingi og á miðhálendinu.

Ætla má að þar verði einhverjir vatnavextir í dag. Þá verður að öllum líkindum stormur á suðausturhorninu í dag og gætu hviður náð 35 m/s austan Öræfa. Er því um að ræða varasamt ferðaveður fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Sjá einnig: Varasamar vindhviður þvert á veg

Annars verða norðanáttir ríkjandi næstu daga. Að frátöldum fyrrnefndum stormi undir Vatnajökli fram á kvöld verður vindur almennt hægur á landinu. Einnig verður fremur svalt á norðanverðu landinu, „en mun hlýrra syðra,“ eins og veðurfræðingur orðar það.

Hiti verður þannig um 5 til 10 stig fyrir norðan, en 10 til 17 sunnan heiða.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Norðvestlæg átt, 8-13 m/s og lítilsháttar rigning NA-til, en annars hægari og skýjað með köflum. Hiti 4 til 9 stig N-lands, en 10 til 17 stig syðra.

Á fimmtudag:

Norðvestlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og skýjað með köflum, dálítil væta austast, en bjartviðri syðra. Hiti 5 til 10 stig NA-til, en annars 10 til 16 stig.

Á föstudag og laugardag:

Hæg norðlæg átt eða breytileg átt og bjart með köflum, en skýjað fyrir austan og sums staðar lítilsháttar væta. Hiti 8 til 16 stig, svalast úti við N- og A-ströndina.

Á sunnudag:

Hægviðri, léttir víða til og hlýnar í veðri.

Á mánudag:

Útlit fyrir hæga vinda, bjart og hlýtt veður víða á landinu, en suðaustankalda og sums staðar vætu við SV-ströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×